150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil koma sérstaklega að fjármálum Reykjavíkurborgar í tengslum við borgarlínuverkefnið og reyndar einnig sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem standa að þessu verkefni með ríkissjóði. Eins og fram hefur komið liggja rekstraráætlanir borgarlínu ekki fyrir þannig að við vitum ekki hvað reksturinn kemur til með að kosta í framtíðinni loksins þegar þetta verkefni verður komið á koppinn, ef það á annað borð verður að veruleika. Ég held að menn átti sig ekki alveg á því á hvaða vegferð þeir eru komnir, sérstaklega í ljósi stöðu efnahagsmála og stöðu ríkissjóðs, að fara að skrifa upp á verkefni upp á annað hundrað milljarða kr. Menn vita ekki hvað það kostar að reka borgarlínu þegar að því kemur, auk þess sem nú þegar er mikið tap á rekstri strætisvagnanna. Það er alveg augljóst og sérfræðingar hafa bent á að það muni þurfa að borga með þessu verulegar fjárhæðir á hverju ári.

Þá spyr maður sjálfan sig: Hafa sveitarfélögin efni á þessu og ekki síður ríkissjóður? Hefur ríkissjóður efni á að fara í þetta dýra verkefni og leggja svona mikla fjármuni í það í þeirri stöðu sem ríkissjóður er í í dag? Ég tel svo ekki vera. Ég sit í fjárlaganefnd og hef farið yfir fjármál ríkisins í tengslum við veirufaraldurinn og tel það vera algjört glapræði að ríkissjóður ætli að standa straum af tugmilljarða króna útgjöldum í strætisvagnaverkefni á höfuðborgarsvæðinu.

Það er rétt að geta þess að í tengslum við fjáraukalög sem við höfum sett hér, og hafa verið til umræðu í fjárlaganefnd vegna veirufaraldursins, sendu sveitarfélög og ýmsir aðilar inn umsagnir og komu á fund fjárlaganefndar og þar á meðal var Reykjavíkurborg. Það er mjög athyglisvert að fara yfir umsögn Reykjavíkurborgar til fjárlaganefndar Alþingis vegna frumvarps til fjáraukalaga. Þar lýsir Reykjavíkurborg stöðu fjármála borgarinnar í ljósi veirufaraldursins. Ég verð að segja það, herra forseti, að mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvernig Reykjavíkurborg ætlar að standa straum af kostnaði við það risavaxna verkefni sem borgarlína er, einfaldlega vegna stöðu borgarinnar í fjármálum. Ef ég gríp aðeins niður í umsögnina frá Reykjavíkurborg þá er þess getið að það sé alveg ljóst að kreppan vegna veirufaraldursins sé bæði langvinnari og dýpri en menn hafi nokkurn tíma séð fyrir. Niðursveiflan setji ekki aðeins fjármál fyrirtækja og ríkisins í erfiða stöðu heldur einnig fjármál heimilanna og sveitarfélaganna. Helsti tekjustofn sveitarfélaganna, útsvarstekjur, hafi dregist saman og muni væntanlega dragast enn frekar saman á þessu og næsta ári með vaxandi atvinnuleysis. Sama muni væntanlega gilda um framlög jöfnunarsjóðs sem byggja á skatttekjum ríkisins og hluta af útsvarsstofni sveitarfélaganna. Tekjur sveitarfélaganna af sölu eigna, svo sem lóða og af gatnagerðargjöldum, séu þegar langt undir áætlunum.

Ég er hér að fara yfir fjármál Reykjavíkurborgar eftir veirufaraldurinn eins og Reykjavíkurborg hefur sett fram í umsögn sinni til fjárlaganefndar. Ég spyr hvort Reykjavíkurborg hafi yfir höfuð efni á því að fara í þetta verkefni og ætla síðan að reka borgarlínu.

Ég held áfram með umsögnina en þar segir að tekjur af gatnagerðargjöldum og lóðasölu verði mjög litlar. Á sama tíma vaxi útgjöld til velferðarmála hratt, einkum fjárhagsaðstoðar vegna vaxandi atvinnuleysis. Á sama tíma sé mikið ákall eftir þjónustu og hvers kyns framlögum sveitarfélaga til íbúa.

Til að draga þetta saman, ég sé að tími minn er að verða búinn, forseti, ég mun halda áfram með þetta í næstu ræðu, er staðan sem sagt þannig hjá Reykjavíkurborg að tekjur hafa dregist verulega saman og sér ekki fyrir endann á því á sama tíma og útgjöld hafa aukist verulega. Sveitarfélagið Reykjavík ætlar á sama tíma að fara að ráðast í veigamiklar framkvæmdir upp á tugi milljarða vegna borgarlínu.

Herra forseti. Tíminn er liðinn og ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá þar sem ég mun rekja nánar fjármál Reykjavíkurborgar (Forseti hringir.) eins og þau hafa verið lögð fram fyrir fjárlaganefnd og spyrja þeirrar spurningar hvort Reykjavíkurborg hafi yfir höfuð efni á því að fara í þessa framkvæmd.