150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég heyri á ummælum nokkurra stjórnarliða í fjölmiðlum í kvöld að það veitir ekki af því að ég fari aðeins betur yfir áhyggjur mínar af borgarlínu. Ég held að það væri reyndar miklu skilvirkara ef þeir sömu og dúkka upp í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum með fullyrðingar kæmu einfaldlega í andsvör eða jafnvel ræður til að benda á sína hlið mála og svara okkur og áhyggjum okkar. En í ljósi þess að þeir hv. þingmenn virðast ekki hafa tekið eftir megininntaki málflutnings okkar þá er ég nú að reyna að fara yfir það í sem skemmstu og einföldustu máli og draga fram meginatriðin í þeirri von að þá mæti þeir og bregðist við því, svari áhyggjum okkar.

Ég var að byrja að lýsa því hversu stórundarlegt það er í raun fyrir Reykjavíkurborg, sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu og að því er virðist ríkið, að ætla að reka tvöfalt almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu í ljósi þess hversu erfiðlega hefur gengið að reka það eina kerfi strætisvagna sem hefur verið til staðar og hversu dýrt það hefur reynst. Við höfum nefnt tilraunina til að efla almenningssamgöngur sem hófst fyrir um áratug og birtist m.a. í svokölluðum rauðum dreglum, sérakreinum fyrir strætisvagna, og um milljarðs króna fjárframlagi ríkisins á ári til að fá fleiri til að taka strætó. Skemmst er frá því að segja að árangurinn af því á undanförnum tíu árum hefur enginn orðið og raunar skilst mér samkvæmt upplýsingum úr borginni — það væri ágætt ef einhver stjórnarliði eða stuðningsmaður þessa máls gæti leiðrétt mig, fari ég ekki rétt með — að það hafi jafnvel orðið samdráttur í raun á nýtingu almenningssamgangna. Eftir að leiðakerfinu var breytt og menn þurftu oftar að skipta um vagna, gátu ekki farið upp í einn vagn og komist á áfangastað heldur þurfti að skipta í ríkari mæli en áður, þá taldi það tvöfalt. Óhagkvæmnin eða óhagræðið fyrir farþegann sem felst í því að þurfa að skipta um vagn þýðir að ferð hans telst vera tvær ferðir, talið í hvert skipti sem einhver stígur upp í vagninn og þó að menn séu bara að fara frá stað A til staðar B þá telst það núna vera tvær ferðir. Það vekur upp spurninguna: Hver er árangurinn í raun? Er jafnvel samdráttur í nýtingu almenningssamgangna þrátt fyrir þetta stórátak síðastliðins áratugar? Það gerir það enn undarlegra að menn skuli í ljósi þeirrar reynslu annars vegar ákveða að framlengja það sem ekki gekk upp með sambærilegum fjárframlögum næstu árin og hins vegar að ríkið setji óhemjufjármagn og skattleggi almenning til þess að koma upp hliðaralmenningssamgöngukerfi, reka tvöfalt kerfi.

En þetta var nú toppað í fréttum í gær þegar við heyrðum af því að borgarfulltrúar og jafnvel hv. þingmenn væru farnir að tala um að það þyrfti líka lestarkerfi. Þá eru menn að færa sig yfir í það að reka hér þrefalt almenningssamgöngukerfi, hafandi ekki tekist að reka eitt kerfi með þeim hætti sem uppfyllir þarfir neytenda og skattgreiðenda.

Ég þarf að segja hér nokkur orð um hvernig þetta tvöfalda eða þrefalda kerfi mun birtast í raun. Ég byrja á tvöfalda kerfinu. Það er ákveðið gagn í því að hér liggur fyrir skýrsla verkefnastofu borgarlínu um fyrsta áfangann að borgarlínunni sem mun eiga að vera einir 14–15 km, held ég, sem vill svo til að er jafn langt og frægt borgarlínuverkefni í Edinborg sem fór, eins og ég hef rakið, langt fram úr kostnaðaráætlun. En hér er bara fyrsti áfanginn á stærð við dæmið fræga frá Edinborg.

Herra forseti. Það er voðalega erfitt við þetta að eiga, rétt þegar maður er að komast á skrið, að vera stöðvaður í miðri ræðu. En ég skil að forseti á ekki annan kost og bið um að vera settur aftur á mælendaskrá.