150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Í þessari ræðu minni ætla ég að fara yfir þær áhyggjur sem ég hef af fjárfestingarkostnaði við þau verkefni sem römmuð eru inn í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og síðan áhyggjur mínar af framtíðarrekstri apparatsins. Það er alveg skýrt samkvæmt lögum, til að mynda er það skýrt tekið fram í áliti meiri hluta samgöngunefndar, að rekstur almenningssamgangna innan sveitarfélaga er á ábyrgð sveitarfélaganna. En staðan er samt sú að í tengslum við það framkvæmdastopp sem verið hefur á höfuðborgarsvæðinu í hartnær áratug, með því að milljarður á ári hefur verið lagður inn í taprekstur á Strætó, er ríkið búið að segja: Við erum til í að semja um þetta, við erum til í að skoða þetta. Það er hlutur sem ég held að við verðum að skoða og ramma þannig inn, og setja upp girðingar í þessu máli, að það verði ekki á sjálfvirku færibandi þegar fjárfestingin er öll um garð gengin raungerist hún á einhverjum tímapunkti.

Einnig má gera ráð fyrir framúrkeyrslu í sveitarfélagi þar sem það kostaði hálfan milljarð að gera upp bragga og önnur verkefni sem við þekkjum úr fréttum að fara öll fram úr áætlun; það er alveg sama hvort um er að ræða leikskólabyggingar, verkefni tengd Sorpu eða öðrum byggðasamlögum, allt virðist fara fram úr áætlun sem gert er hér á höfuðborgarsvæðinu. Við skulum miða við að fjárfestingarkostnaðurinn verði 50 milljarðar plús. Þegar þarna verður komið sögu verður væntanlega enn myljandi tap á rekstri Strætó eins og hann er í dag. Þá er eftir reksturinn sem tengist borgarlínu og þar er ég hræddur um — með þeirri miklu tíðni sem tilkynnt hefur verið að verði á vögnum, sem mun líka valda því að yfir daginn verða færri í hverjum vagni, það er alveg augljóst í mínum huga — að rekstrarmódel borgarlínunnar sjálfrar verði ósjálfbært. Við skulum bara nálgast það með galopin augun. Miðað við það hvernig gengið hefur hjá Strætó, með þeim hagræðingaraðgerðum sem þar voru mögulegar, tel ég hverfandi líkur á því að það takist að stilla borgarlínu þannig af að tekjur af farþegagjöldum standi undir rekstri. Við skulum bara ganga út frá því að það sé algerlega útilokað því að ég held að það sé raunveruleikinn.

Þá stendur eftir: Ætla sveitarfélögin, nágrannasveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, sem eru hluti af þessum samgöngusáttmála, og Reykjavíkurborg að taka á sig að borga með þessum rekstri? Að fenginni reynslu, og með því að hlusta á og lesa inn í það sem borgarstjóri hefur sagt í viðtölum, þá virðist það vera planið hjá sveitarfélögunum að leita á náðir ríkisins þegar kemur að því að reka apparatið. Við getum ekki klárað þetta mál án þess að fara í gegnum það þó að hér sé því haldið fram að reksturinn komi þessu ekkert við. Auðvitað kemur reksturinn þessu við. Ef ríkissjóður ætlar að leggja 50 milljarða í þetta apparat þá stenst það enga skynsemisskoðun að telja að þegar búið verður að leggja 50 milljarða í fjárfestinguna segi ríkissjóður: Nei, þetta er bara á höndum sveitarfélaganna. Auðvitað verður mjög hart sótt að ríkissjóði að styðja við rekstur borgarlínu, rétt eins og hæstv. samgönguráðherra hefur framlengt milljarðakrónastuðning við Strætó. Þrátt fyrir að tíma framkvæmdastopps sé að ljúka eru allar merkjasendingar samgönguráðherra og stjórnvalda í þá veru að stjórnvöld séu tilbúin að ræða aðkomu að rekstri borgarlínu. Þó að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, svo að ég nefni einn þingmann, haldi því fram að þetta séu allsendis ótengd mál verðum við að leyfa okkur að horfa á stóru myndina. Þá tala ég um samgöngusáttmálann í heild sinni, borgarlínu, rekstur borgarlínu þegar þar að kemur, rekstur Strætó, samvinnuverkefnin, svokölluð PPP-mál, og ohf.-ið um borgarlínu.