150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Í síðustu ræðu talaði ég um gjaldtökuhugmyndir stjórnvalda. Ég hef farið yfir þau stjórnarmál sem fjölluðu um og boðuðu raunverulega gjaldtöku. Á ég þar við frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og loks samgönguáætlunina sjálfa. Öll þessi stjórnarmál gera ráð fyrir gjaldtöku á mjög mismunandi hátt. Útfærslurnar eru mismunandi vegna mismunandi verkefna og aðkomu hins opinbera, almennings og einkahlutafélaga. Eitt fjallar um jarðgöng, annað um samvinnuverkefni og þriðja um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Gjaldtökuhugmyndir stjórnvalda eru mjög brotakenndar. Við sjáum þær birtast í þremur stjórnarmálum. Ég kalla eftir því að þær verði settar heildstætt fram með það að markmiði að almenningur sjái á spilin, að þetta sé ekki gert eins og hér birtist.

Ég efast um, herra forseti, að almenningur viti hreinlega af þessu. Veggjöld hafa vissulega verið rædd í nokkur ár. Almenningur veit hugsanlega ekki af því að þessi þrjú mál eru til meðferðar á þinginu og það á að klára þingið innan örfárra daga. Veit almenningur af því að þetta er komið svona langt? Ég kalla eftir því að þetta sé sett fram í heildstæðu frumvarpi og við getum þá rætt um gjaldtökuna í heilu lagi, samhangandi, en ekki brotakennt eins og það birtist í þessum þremur málum. Ég læt þá yfirferð minni um þetta lokið að sinni.

Ég ætla einnig að tala aðeins um framsetningu varðandi borgarlínuna. Ég var búinn að nefna áróðursbrögðin sem einkenna framsetningu stjórnvalda í Reykjavík á kynningu á þessari borgarlínu og kannski vinnst betri tími síðar til að fara yfir það. Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur segir það í grein sinni í Kjarnanum en fyrirsögn greinarinnar er: Einhliða áróður í samgönguskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Við erum að ræða þetta og höfum verið að því undanfarna daga. Og hvað er að gerast? Í fyrsta sinn eru netmiðlar og fjölmiðlar fullir af greinum og sjónarmiðum fólks héðan og þaðan um borgarlínu. Ég get ekki annað en fagnað því, herra forseti, vegna umfangs verkefnisins og þeirra fjármuna sem í það eiga að fara. Og hugsanlega mun enn þá meira fara í það.

Ég er líka mjög hissa á stöðunni sem Sjálfstæðisflokkurinn er í. Ég velti því fyrir mér vegna þess að í þessu máli eru sjónarmiðin frá Sjálfstæðismönnum raunverulega þrjú. Í fyrsta lagi ályktar leiðarahöfundur Morgunblaðsins um borgarlínu í morgun, með leyfi forseta.

„Það er dapurlegt þegar jafn mörg brýn verkefni í samgöngumálum og raun ber vitni liggja fyrir um allt land, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu, skuli þingið nú vinna að því að sóa tugum milljarða, eða jafnvel enn hærri fjárhæðum, í framkvæmd sem í besta falli gerir ekkert gagn en verður að líkindum til að tefja umferð á svæðinu enn frekar.“

Oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, Eyþór Arnalds, skrifar grein í sama blað í dag og hann segir um borgarlínu, með leyfi forseta:

„Reykjavíkurborg er að tvöfalda útgjöld sín til borgarlínu. Það er gert án þess að fjármögnun verkefnanna liggi fyrir. Án þess að endanleg fjárfestingaráætlun sé til. Án þess að rekstraráætlun sé gerð.“

Þetta segir oddviti Sjálfstæðismanna í borginni. Í þriðja lagi ætlaði ég að vitna í ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen frá því á fimmtudag þar sem hún segir í raun og veru um borgarlínu að hún sé óútfært fyrirbæri, eins og hún orðar það.