150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég vil halda áfram þar sem frá var horfið í síðustu ræðu minni þar sem ég ræddi um fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og reyndar sveitarfélaganna líka sem standa að samkomulagi um borgarlínu svokallaða. Reykjavíkurborg kom á fund fjárlaganefndar vegna fjáraukalagafrumvarpanna og lýsti yfir þungum áhyggjum af fjárhag borgarinnar vegna veirufaraldursins. Ég hef aðeins rakið umsögn borgarinnar til fjárlaganefndar og ætla ég að ljúka því þar sem segir að það stefni í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Með leyfi forseta:

„Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára fram undan standa undir afborgunum.“

Þetta er umsögn frá Reykjavíkurborg til fjárlaganefndar og þeir segja hér að þeir geti í raun og veru ekki staðið undir afborgunum vegna ástandsins. Og svo segir hér í lokin:

„Þetta eru meginrökin fyrir því að ríkið komi með beinan óendurkræfan stuðning til sveitarfélaganna sem tryggir að þau geti staðið undir þjónustuskyldum sínum við íbúana og heimilin og staðið með atvinnulífinu.“

Reykjavíkurborg er með öðrum orðum, frú forseti, að fara fram á fjárstuðning, óendurkræfan fjárstuðning, frá ríkisvaldinu vegna veirufaraldursins. Á sama tíma ætlar þessi sama borg að standa fyrir tugmilljarða króna útgjöldum vegna borgarlínu. Ég átta mig ekki alveg á þessu, frú forseti. Það er svo út úr korti að ætla sér að fara í þessa framkvæmd og geta ekki einu sinni staðið undir afborgunum af lánum og þurfa að fá sérstakan ríkisstuðning vegna veirufaraldursins. Það sér hver heilvita maður, frú forseti, að það er algerlega óforsvaranlegt að leggja í þessa vegferð, þessa borgarlínu, eins og staðan er í fjármálum borgarinnar og ríkisfjármálum einnig. Það er alveg ljóst að það þarf að fara í verulegan niðurskurð í næstu fjárlögum og hagræðingaraðgerðir. Hér er verið að skuldbinda ríkissjóð upp á 50 milljarða kr. til næstu 15 ára og á sama tíma eru þessir aðilar, meðeigendur ríkisins að þessu verkefni, að fara fram á fjárstuðning frá ríkinu af því að þeir eiga ekki fyrir afborgunum af lánum. Maður spyr: Eru menn algerlega raunveruleikafirrtir í þessu máli? Ég er farinn að halda það. Ég skil ekki hvers vegna þessu máli er ekki ýtt strax út af borðinu, einfaldlega vegna stöðunnar í efnahagsmálum, stöðu sveitarfélaganna sem standa að verkefninu, stöðu ríkissjóðs. Það sjá það allir að þetta er algerlega óforsvaranlegt.

Þetta er rakið nánar í minnisblaði frá Reykjavíkurborg sem þeir sendu fjárlaganefnd þar sem þeir fara nánar yfir fjárhagsstöðuna og segja t.d. að flest sveitarfélög þurfi stuðning úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að geta fjármagnað lögbundnar skyldur sínar í venjulegu árferði og ráða jafnvel samt ekki við verkefnin. Maður er bara gáttaður á þessu, frú forseti, að ætla síðan að fara í þessa vegferð sem heitir borgarlína með öllum þeim kostnaði sem því fylgir og þeirri óvissu sem er í því verkefni öllu, hvort það verði notað með þeim hætti sem er nauðsynlegur til að þetta beri sig. Það gengur alla vega ekki vel að fjölga þeim sem nota strætisvagna. Og hvað segir okkur að það verði meiri ásókn í þetta nýja strætisvagnakerfi sem heitir borgarlína? Það er verið að renna algerlega blint í sjóinn með það. Engu að síður á að fara í þessa gríðarlegu fjárfestingu.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er búinn og ég ætla að halda áfram með þessa umfjöllun um fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar (Forseti hringir.) og þeirra sem standa að þessu verkefni í næstu ræðu. Vinsamlega, frú forseti, setjið mig aftur á mælendaskrá.