150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég byrja þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni en þá var ég að tala um greinaskrif og ræður þingmanna Sjálfstæðisflokks sem hafa verið á þá lund að alls ekki virðist vera neitt samræmi í herbúðum Sjálfstæðismanna í þessu máli, alls ekki. Ég var búinn að lesa örlítið upp úr ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen og mun gera það áfram. Ég var búinn að vitna í leiðara Morgunblaðsins, í leiðarahöfund blaðsins, þar sem einnig eru færðar fram spurningar um hvers vegna farið sé í þessa vegferð. Ég var einnig búinn að vitna í greinaskrif oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík, Eyþór Arnalds. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson nefndi þessi skjöl sem ég hef hér útprentuð, ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen og greinar í Morgunblaðinu eftir Eyþór Arnalds og leiðarahöfund blaðsins, Andersen-skjölin. Það má til sanns vegar færa að þau marka tímamót í að upplýsa okkur um afstöðu Sjálfstæðisflokksins sem virðist vera þverklofinn í málinu. Það væri gaman að heyra útskýringar þeirra sem hafa fylgt þeirri stefnu stjórnarinnar að leggja tugi milljarða í borgarlínu.

Ég ætla að lesa aðeins upp úr sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þessi sáttmáli er síðan í haust og á bls. 11 í útprentinu stendur:

„Hvernig verður fjármögnun samkomulagsins háttað? Heildarfjármögnun samkomulagsins er 120 milljarðar.“ — Það er allt saman, borgarlína og aðrar framkvæmdir. — „Ríkið mun á samningstímanum leggja fram 45 milljarða kr., sveitarfélögin 15 milljarða kr.“

Ríkið er að leggja fram þrefalda þá upphæð sem sveitarfélögin leggja fram í allar þessar framkvæmdir. Svo segir að gert sé ráð fyrir sérstakri fjármögnun, sem tryggð verði við endurskoðun gjalda af ökutækjum. Eigum við von á því að almenn gjöld á ökutæki verði hækkuð til að standa straum af kostnaði við þetta verkefni, þetta gæluverkefni, þessa draumaverksmiðju? Svo er talað um gjöld af umferð, þar er átt við flýtigjöldin, í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum við sölu á eignum ríkisins. Þar er átt við Keldnalandið sem búið er að leggja í þetta pókerspil þeirra félaga. Þetta muni standa straum af 60 milljörðum kr. Hluta af þessu er ætlað að renna í borgarlínu.

Við höfum lesið hér upp úr ótal skjölum, Andersen-skjölunum m.a., hvað mönnum finnst um undirbúning þessa verkefnis. Það eru nú aldeilis skiptar skoðanir um það. Og áróðurinn sem rekinn hefur verið, einhliða áróður sem hefur verið rekinn. Það er greinargóð grein eftir Þórarin Hjaltason, verkfræðing, í Kjarnanum um þann áróður sem hefur verið rekinn, einhliða áróður, fyrir þessu verkefni. Að hverju eru menn að stefna? Er þetta einn blekkingavefur? Menn skyldu nú aðeins athuga sín mál áður en lengra er haldið í þessari vegferð. Miðflokkurinn er auðvitað algerlega á móti þessum hugmyndum meðan þær eru ekki betur útfærðar en raun ber vitni.

Ég ætlaði að halda áfram örlítið að fara í ræðu hv. þm. Sigríðar Á Andersen. Hún talar um þörfina á mislægum gatnamótum í Reykjavík og að hafist sé handa við framkvæmdir við þau, við Miklubraut og Háaleitisbraut og Miklubraut og Grensásveg, sem hún telur að þurfi að vinda sér í. Hún segir að það verði ekki lengur unað við að ekki verði farið í þessa framkvæmd sem kostar brotabrot af því sem verið er að leggja í þessa borgarlínu.