150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég var að lesa upp úr ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen í síðustu ræðu minni og var ekki búinn með það sem mér fannst bitastæðast í ræðunni. Ég mun halda áfram þar sem frá var horfið, en áður en ég byrja á því vil ég nefna að áðan barst mér frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni áskorun eða beiðni um að taka til rannsóknar og hefja leit að rekstraráætlun borgarlínu, enda fannst hv. þingmanni ótrúlegt að fara í framkvæmd sem kostar tugi ef ekki hundrað milljarða án þess að nein rekstraráætlun lægi fyrir. Hann taldi að sú rekstraráætlun hlyti að finnast einhvers staðar í skúffum eða skjölum og ég tek glaður við því verkefni að hefja leitina að henni. Það verður fróðlegt ef eitthvað finnst. Ég mun greina ykkur frá því, eftir því sem rannsókninni vindur fram, hvers ég verð áskynja, frú forseti, og mun hefja störf nú þegar.

Ég var kominn að því í ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen þar sem hún var að tala um að ekki yrði lengur unað við framkvæmdastopp í Reykjavík og nefndi tvenn gatnamót Miklubrautar, annars vegar við Háaleitisbraut og hins vegar við Grensásveg. Síðan segir hún um almenningssamgöngur, með leyfi forseta:

„Það liggur fyrir og kemur fram í þessum sáttmála að stefnt er að því að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna úr 4% í 8%.“

Þarna er hún að vitna í sáttmálann sem gerður var 2011, en þá var hlutdeild almenningssamgangna í samgöngum 4%. Svo segir hv. þingmaður:

„En það er enn þann dag í dag 4% […] Það er borin von að hún verði komin upp í 8%. Og þó svo að við næðum almenningssamgöngum upp í 8% er fráleitt að ætla að útdeila af almannafé 50 milljörðum til almenningssamgangna“ — þarna tekur hún lægstu upphæðina sem hefur verið nefnd undanfarið varðandi borgarlínu — „þegar þátttaka almennings í þeim samgöngum er ekki meiri en þessi.“

Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, hún er ekki meiri en 4% og jafnvel þótt hún næðist upp um helming þá er það næsta lítil þátttaka og langt frá því að geta staðið undir slíkri framkvæmd sem hér er farið í, langt frá því. Erlendis er algengt að hlutdeild almenningssamgangna sé kannski 40% til þess að bera uppi rándýrt kerfi vagna. Eins og hv. þingmaður segir, með leyfi forseta:

„Ég hef það fyrir víst að fyrir nokkrum árum þegar borgarfulltrúar voru að kynna sér þessi mál, í árdaga þessara hugmynda, og fóru til sérfræðinga í Þýskalandi, ég held í Freiburg, þar sem er fræg borgarlína, þar sem menn kynntu þessar hugmyndir og voru að leita ráða, voru þeir spurðir: Hvað eru margir sem nota almenningssamgöngur? Það voru 2%–3% þá. Menn göptu og skilaboðin til Íslendinga voru þau að reyna ekki að hugleiða fyrirbæri eins og borgarlínu, sama hvernig það væri útfært, reyna ekki að hugleiða slíkt fyrirbæri fyrr en búið væri að ná almenningssamgöngum almennt upp í 40%.“

Þarna er himinn og haf á milli en samt ætla menn að fara út í þetta. Það kom fram í máli hv. þm. Birgis Þórarinssonar í ræðu rétt áðan, en hann á sæti í fjárlaganefnd, að á sama tíma, vegna Covid-faraldursins, hefði Reykjavíkurborg sótt um óendurkræfa fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Á meðan borgin er svo illa stödd fjárhagslega á að fara í svona framkvæmd, sem hv. þm. Sigríður Andersen kallar í ræðu sinni „óútfært fyrirbæri“. (Forseti hringir.) Samt á að fara út í það þótt menn eigi enga aura.