150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef verið að fjalla aðeins um fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna sem standa að þessu svokallaða borgarlínuverkefni, eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason nefndi réttilega. Ég er kominn í síðari hlutann í þeirri umfjöllun og má kannski ljúka henni á þeim orðum að Reykjavíkurborg skuldar 116 milljarða króna. Samstaðan öll skuldar 340 milljarða króna. Þá eru skuldir Sorpu með og enn bætist við þær. Síðan glímir Reykjavíkurborg við fjárhagsvanda vegna veirufaraldursins og ekki er séð fyrir endann á því. Fjárhagsaðstoð mun aukast verulega á næstu misserum vegna mikils atvinnuleysis o.s.frv.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að það er bara eitt í stöðunni varðandi borgarlínuverkefnið. Það er að ýta því út af borðinu. Fjárhagslega er óforsvaranlegt að ráðast í þessar dýru framkvæmdir, upp á annað hundrað milljarða króna, miðað við stöðuna í efnahagsmálum, stöðu ríkissjóðs, stöðu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og stöðu Reykjavíkur sérstaklega. Í því felast einnig álögur á íbúanna í formi veggjalda. Óljóst er hvernig á að fjármagna u.þ.b. 60 milljarða af þessum hluta, það eigi að vera í formi gjalda á höfuðborgarbúa, skattheimtu á höfuðborgarbúa, ofan á allt annað sem við höfum þurft að glíma við vegna veirufaraldursins, fjöldaatvinnuleysi og minni tekjur hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum.

Ég held að ekki þurfi nema tiltölulega einfalda sýn á þetta verkefni til að sjá að óskynsamlegt er, ekki síst fjárhagslega, að ætla sér að fara í það í þessu árferði og skuldbinda ríkissjóð og borgarsjóð til 15 ára. Það koma nýir sveitarstjórnarfulltrúar. Það verða kosningar, ný borgarstjórn og nýjar ríkisstjórnir. Hér er verið að skuldbinda borgarsjóð árafjölda fram í tímann og ekki síst ríkissjóð, sem við ræðum hér, án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hvað framtíðin ber í skauti sér, í þeirri miklu óvissu sem við höfum þurft að glíma við. Og gleymum því ekki að við þurfum að tryggja að velferðarkerfið hafi þá fjármuni sem það þarf. Þess vegna er ekki hægt að skuldbinda ríkissjóð fram í tímann án þess að vita nokkuð hvað kemur út úr þessu verkefni.

Það er svo mikil óvissa í kringum verkefnið. Það hefur margoft komið fram að það er mjög óvíst hversu vel gengur að fá fólk til að nota mannvirkið ef og þegar það rís. Nú þegar hefur verið mjög erfitt að fá fólk á höfuðborgarsvæðinu til að nýta almenningssamgöngur svo nokkru nemi. Það er búið að leggja óhemjufjármuni í að reyna að fjölga þeim sem nýta strætisvagnakerfi Reykjavíkurborgar og höfuðborgarsvæðisins og gengið mjög erfiðlega. Að ætlast síðan til að þessi framkvæmd og þetta kerfi komi til með að verða eitthvað öðruvísi en strætisvagnakerfi þegar kemur að notkun held ég að sé afar hæpið.

Þess vegna segi ég, herra forseti: Það er bara einfaldast í stöðunni að ýta þessu máli frá sér. Út af borðinu með málið vegna þess að það þarf að glíma við fjölmörg önnur verkefni og reyna með einföldum hætti að greiða úr umferðartöfunum sem eru núna á höfuðborgarsvæðinu, eins og t.d. bara með mislægum gatnamótum sem myndu auka umferðarflæðið verulega á Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Ég held að búið sé að reikna út að mislæg gatnamót á þessum slóðum myndu leysa ótrúlega mikinn vanda. Förum þá í þær aðgerðir (Forseti hringir.) fremur en að fara í eitthvað sem mikil óvissa ríkir um og er margfalt kostnaðarsamara. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Vinsamlegast setja mig aftur á mælendaskrá.