150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:29]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mér entist ekki tími í síðustu ræðu til að klára upplestur úr athugasemdum Markaðsstofu Norðurlands við samgönguáætlun sem nú er til umræðu. Mig langar til að halda því áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef flugstefna er sett fram þannig að hún ákveði að ekki verði byggðir upp fleiri alþjóðaflugvellir þá er verið að taka ákvörðun um neikvæð áhrif á efnahagslíf á landsbyggðinni vegna tapaðra tækifæra. Er það ákvörðun sem er búið að reikna út til fulls, þ.e. hver verða efnahagsleg áhrif fyrir landið allt og fyrir ákveðin svæði? Sú niðurstaða virðist ekki vera í takt við stefnu stjórnvalda um byggðaþróun.

Sumarið 2015 fól starfshópur forsætisráðherra um aukna möguleika í millilandaflugi Rannsóknamiðstöð ferðamála að vinna skýrslu um svæðisbundin og þjóðhagsleg áhrif af beinu millilandaflugi til Akureyrar eða Egilsstaða. Starfshópurinn byggði sínar tillögur á þessari skýrslu, sem sýndi fram á ótvíræðan þjóðhagslegan ávinning af auknu millilandaflugi um þessa flugvelli. Jafnframt kom fram að fjárfesting ríkisins í auknu millilandaflugi á Akureyri eða Egilsstöðum með hvatakerfi í gegnum Flugþróunarsjóð myndi skila sér tvöfalt til baka í ríkissjóð gegnum auknar skatttekjur.“

Það er rétt að minnast á að ég man vel eftir þessari umræðu og þessum áformum árið 2015. Af þessu varð því miður ekki vegna ýmissa þátta. Það er frekar dapurt að þessi tilraun hafi ekki orðið að veruleika. Ef ferðaþjónustan kemst aftur af stað, sem hún gerir vonandi, og eykst er mjög brýnt að við getum boðið ferðamönnum upp á meiri fjölbreytni með því að opna fleiri gáttir inn í landið. En svo ég haldi aðeins áfram:

„Það er margt sem mælir með Akureyrarflugvelli sem fyrsta valkosti á eftir Keflavíkurflugvelli. Hér eru allir innviðir til að taka við fólki, bæði gisting, veitingar, farþegaflutningar og slík þjónusta, en einnig mjög vel búið sjúkrahús. Á Akureyrarflugvelli er miðstöð sjúkraflugs á Íslandi og bandaríski herinn velur Akureyrarflugvöll sem sinn fyrsta varaflugvöll ...“

Þarna tala náttúrlega heimamenn um sinn flugvöll en eins hefur Egilsstaðaflugvöllur verið inni í myndinni. Ég les aðeins áfram:

„Markaðsstofa Norðurlands tekur heils hugar undir að tenging millilandaflugs og innanlandsflugs sé mikilvæg og í raun mjög mikilvæg fyrir framtíðartækifæri í ferðaþjónustu á Íslandi. Ekki kemur hins vegar fram í stefnunni hvernig á að bæta þessar tengingar. Markaðsstofa Norðurlands leggur áherslu á að það þurfi að bæta aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli til þess að svona tengingar séu mögulegar og skilvirkar í framkvæmd. […]

Meginmarkmið: Beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll hefur verið skilgreint í mörg ár sem stærsta hagsmunamál Norðlendinga í sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra og hefur Flugklasinn Air 66N fengið stuðning úr sóknaráætlun oftar en einu sinni vegna mikilvægis verkefnisins. Einnig er það ótvíræð ósk sveitarstjórna á Norðurlandi að uppbyggingu á Akureyrarflugvelli verði hraðað svo hægt sé að byggja upp millilandaflug til framtíðar. Frá árinu 2011 hafa tólf sveitarfélög á Norðurlandi eystra og vestra stutt við og fjármagnað verkefni Flugklasans Air 66N sem vinnur að því að efla millilandaflug um Akureyrarflugvöll.

Markmið: Markaðsstofa Norðurlands tekur undir þetta og það hefur sýnt sig hversu mikilvægur Flugþróunarsjóður hefur reynst við að koma á auknu millilandaflugi. (Forseti hringir.) Hann mun halda áfram að vera lykilþáttur […]“

Hæstv. forseti. Ég óska þess að verða settur aftur á mælendaskrá.