150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Samgöngumálin hafa vitanlega ýmsar myndir. Það er flug, hafnir og siglingar, það eru vegirnir, þeir sem fara um vegina eru ferðamenn, íbúar landsins o.s.frv. Við flytjum vörur og förum í frí og annað og nýtum til þess innviðina. Því er svo mikilvægt að þau plön sem við höfum um innviði okkar séu raunhæf og gangi upp og gangi eftir. Samgönguáætlun er vissulega mikilvægt leiðarstef í því að gera áætlun til lengri tíma litið svo hægt sé að vinna og undirbúa málin, en samgönguáætlun er ekki meira virði en þeir fjármunir sem settir eru í hana. Þess vegna er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hvað er til skiptanna. Á það hefur verið bent, m.a. í nefndarálitum, að framkvæmdaþörfin í samgöngumannvirkjum sé 400 milljarðar, það er einhvers staðar nefnt hér. Þá á eftir að taka inn í það sem bætast mun við á tímabilum áætlana.

Við þurfum líka að vera búin undir að lenda í ýmsum skakkaföllum þegar kemur að samgöngum, hvort sem það er að hafnarmannvirki gefi sig út af miklu brimi eða einhverju slíku, skriður eða flóð geta teppt vegi og langa vegarkafla. Við höfum vitanlega séð þetta gerast margoft. Flugvellir geta teppst og á landi eins og Íslandi held ég að sé betra að fleiri flugvellir en færri geti tekið við stærri flugvélum. Því sakna ég þess svolítið að meiri hlutinn skuli ekki leggja meira upp úr því að kveða skýrar að orði með það að einhver besti flugvöllur landsins fái meira vægi í samgönguáætlun, þ.e. Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki. Það er eins og verið sé að nefna hann til málamynda. Ég velti fyrir mér hvers vegna það er gert, hvort verið sé að stinga dúsu upp í sveitarstjórnarmenn eða aðra norður í landi sem hafa lengi barist fyrir því að völlurinn sé metinn og gerður að þeim velli sem hann ætti að vera. Þá er ég vitanlega ekki með neina drauma um að frá þeim velli verði mikil útgerð með flugi með farþega til og frá á Íslandi. Þetta er fyrst og fremst varaflugvöllur fyrir millilandaflugvelli landsins.

Flugvellirnir sem við notum í dag til millilandaflugs eru í Keflavík, Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég veit ekki hvort hægt væri að lenda stærri vélum á fleiri flugvöllum. Ef við horfum á legu þessara flugvalla henta þeir misvel sem varaflugvellir fyrir t.d. höfuðborgarsvæðið. Þó að á Egilsstöðum sé flugvöllur sem er býsna góður, og ég fagna því að við séum að setja fjármuni í að laga akstursbrautina þar, held ég að sé, þá eigum við að halda áfram að byggja þann flugvöll upp. Hann mun verða mikilvægur sem og Akureyrarflugvöllur. En það er alveg augljóst að það er hagstæðara fyrir alla ef flugvél gæti lent í u.þ.b. þriggja og hálfs eða fjögurra tíma akstursfjarlægð frá Reykjavík, að það væri yfir eina og hálfa eða tvær heiðar í mesta lagi að fara til að koma fólki á sinn stað, í stað þess að þurfa að keyra á rútum í kannski í sex, sjö, átta tíma yfir þrjár, fjórar, jafnvel fimm heiðar sem eru hver annarri varasamari.

Hæstv. forseti. Það er þetta sem ég sakna svolítið að við skoðum. Það er einhver sérstök pólitík í því að verja þá velli sem fyrir eru án þess að skoða heildarsamhengið. Það væri t.d. mjög dýrmætt fyrir Akureyrarflugvöll að hafa mjög nálægt góðan varaflugvöll sem gæti tekið við þeim flugvélum sem ekki geta lent á Akureyri og ekið farþegum þangað á kannski einum og hálfum tíma. Slíkt myndi styrkja alla ferðaþjónustu, ekki síst á Akureyri og í Eyjafirðinum og austur og vestur úr um allt. Þetta er eitt af þeim málum sem eru nefnd með einhverju hálfkáki í nefndaráliti meiri hlutans í stað þess að það sé alvörubreytingartillaga og kveðið fastar að orði. Ég sakna þess svolítið, herra forseti, að ekki sé tekið fastar á þessu máli.