150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Samgönguáætlun er mjög stórt og viðamikið mál og snertir fjölmarga þætti í landinu. Það er samt ekki að ófyrirsynju sem borgarlína dregur að sér mikla athygli í þessari umræðu vegna þess að hún er stærsta einstaka verkefnið. Hún er auðvitað mjög umdeild, herra forseti, og sýgur til sín fé sem gæti annars nýst í mikilvæg og þörf samgöngumannvirki. Ég vil í því sambandi nefna nauðsyn þess að Miklabraut verði hindrunarlaus alveg úr Ártúnsbrekku og vestur á Hagatorg. Ég vil sömuleiðis nefna mikilvægi Sundabrautar. Við þurfum náttúrlega fleiri mislæg gatnamót og ljósastýringu. Allt eru þetta þættir sem eru fallnir til þess að gera umferðina greiðari og auka umferðaröryggi og bæta lífsgæði fólks sem býr á höfuðborgarsvæðinu og landsmanna allra sem eiga auðvitað erindi til borgarinnar.

Ég ætla að leyfa mér að segja í framhaldi af þessu að ég undrast að þeir þættir sem við höfum gert hér að umræðuefni skuli ekki verða tilefni til þess að fylgismenn hinnar svokölluðu borgarlínu skuli koma hingað og ræða við okkur sem höfum leitast við að halda uppi málefnalegri umræðu um þetta mál, um þá þætti sem skipta máli. Hvar er t.d. umræða af hálfu þessara fylgismanna um þá ábendingu umferðarverkfræðings að hægt sé að ná þeim markmiðum í almenningssamgöngum sem að er stefnt með því að verja til þess nokkrum milljörðum, eins og hann orðar það í grein í Kjarnanum, frekar en að setja í það tugi eða hundruð milljarða? Hvers vegna fást þeir sem eru fylgjandi verkefninu ekki til að ræða þetta? Hvers vegna koma þeir ekki hingað og ræða um kostnaðaráætlun, að hún sé eitthvað sem sé á byggjandi? Hvers vegna ræða þeir ekki hvaða hættur steðja að slíkri kostnaðaráætlun, í þeim skilningi að þar séu þættir sem gætu farið fram úr áætlun? Hvers vegna ræða þeir ekki þá spurningu sem hér hefur verið lögð fram um arðsemismat verkefnisins? Hvaða arðsemi má vænta af þessu verkefni? Af hverju koma þeir ekki hérna og ræða umhverfisáhrif? Af hverju ræða þeir ekki rekstraráætlun?

Reyndar rifjast upp að rekstraráætlun bar á góma í orðaskiptum á milli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, sem er fylgjandi borgarlínu eftir því sem hún segir sjálf, og hv. þm. Bergþórs Ólasonar og ég heyrði ekki betur en að það væri helst á henni að skilja að slík rekstraráætlun væri ekki fyrir hendi. Ég þigg glaður leiðréttingu ef ég hef misskilið þá umræðu.

Nú stendur þannig á hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem er formaður Miðflokksins, hefur beint þeirri áskorun til fyrrverandi sýslumanns og lögregluforingja, skólastjóra Lögregluskólans, hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar, að hann geri leit að þeirri rekstraráætlun, hún hljóti að vera fyrir hendi, hún hljóti að vera einhvers staðar ofan í skúffu. Það væri auðvitað fróðlegt ef hv. þm. Karl Gauti Hjaltason gæti lýst því hvaða aðferðir eru lögreglu til að mynda tiltækar, auðvitað eru þær honum ekki tiltækar því að hann er náttúrlega ekki lengur þar, en hvaða aðferðir væru vænlegar til að hafa upp á þessari rekstraráætlun.

Ég þarf að fjalla nánar um þessi mál, herra forseti, (Forseti hringir.) og bið um að verða settur á ný á mælendaskrá.