150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég hef í tveimur ræðum rætt nokkuð um fyrstu tvo áfanga af svokallaðri borgarlínu sem eru komnir í umferð eða voru kynntir fyrir nokkrum dögum. Það er eins og vant er þegar eitthvað kemur upp um þetta mál að þá henda menn upp miklum skrautsýningum. Tvö skjáskot sem ég tók af þessari kynningu benda nú ekki til þess að þetta sé eins rósrautt og fagurt og haldið hefur verið fram. Þar á meðal hef ég minnst á það nokkrum sinnum að nú skilst mér að sætaskipan og sætin í þessu apparati verði kynnt á morgun eða hvort það voru sætin á biðstöðvunum, annaðhvort. Menn eru alltaf öðru hvoru að skjóta upp flugeldum um þetta enda er þetta fjármagnað af ríkinu að stórum hluta til þannig að menn geta hagað sér eins og drukknir sjóarar, eins og einu sinni var sagt, en það er náttúrlega dónaskapur við þá stétt manna.

Það er fyrirséð að næstu 15 árin verða tvö kerfi í gangi og jafnvel lengur vegna þess að menn hafa sagt að ekki sé samasemmerki á milli þess að strætó hætti að ganga og að þetta apparat verði tekið í notkun. Ég leiddi að því líkur í ræðu áðan að maður sem tekur borgarlínu upp á Höfða, miðað við fyrstu áætlun, mætir 13 km og 22 stoppistöðvum seinna í Hamraborg í Kópavogi og tveimur stoppum þar í burtu er Smáralind. Ég sagði: Þetta getur ekki verið fljótleg aðferð til að ferðast um þetta svæði.

Ég hef horft aðeins til útlanda af því menn hafa rætt mjög um að það sé eitthvað að okkur, þessum forpokuðu Miðflokksmönnum, sem viljum ekki fá þessa skyndilausn, að við ættum að kíkja til nágrannalandanna og ég hef einmitt verið að gera það. Ég hef sagt frá reynslu af Álaborg sem er svipuð að stærð og Reykjavík, svipuð að fjölmenni. Þar hafa menn ekki farið út í svona ævintýri heldur hafa þeir bætt almenna strætisvagnakerfið. Ég hef velt fyrir mér — það liggur náttúrlega ekki fyrir, herra forseti, en væri fróðlegt að biðja um skýrslu um það — þessum milljarði á ári sem hefur farið til að fjölga þeim sem nota almenningsfarartæki úr 4% í 4% á níu árum. Þetta eru 9 milljarðar. Úr 4% í 4%, það er stórkostlegur árangur. Menn hefðu kannski velt því fyrir sér að það væri ráð að nota eitthvað af þessum peningum sem þeir ætla núna að setja í þessi leiktjöld, þessi pótemkinleiktjöld sem borgarlínan lítur út fyrir að vera, og setja brot af þessu fé í fyrsta lagi í það að hafa bara frítt í strætó og sjá hvort það hefði áhrif, auka ferðatíðni og breyta jafnvel skipulagi akstursleiða, breyta leiðunum þannig að það væri auðveldara að skipta t.d. um strætisvagn o.s.frv. Ég veit t.d. að fyrir mann sem býr í austurhluta Kópavogs og vinnur uppi í Grafarholti, sem er mjög skammt undan, er þetta klukkutímaferðalag með tveimur skiptistöðvum og ótrúlegar krákuleiðir og stígar sem eru farnir. Maður hefur velt því fyrir sér hvort það sé ekki þess virði, tilraunarinnar virði, að fara þá leið áður en við byrjum að hella 50 milljörðum til að byrja með og fórna Keldnalandinu til að borga.

Ég hefði viljað fara aðeins lengra og dýpra ofan í þessa umræðu, herra forseti, en ég sé að tími minn er búinn og bið því hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá þannig að ég geti haldið áfram þessum hugleiðingum.