150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Virðulegi forseti. Ég verð að leyfa mér að segja að umræður um borgarlínu sem lykilþátt í samgönguáætlun — lykilþátt segi ég vegna þess að þetta er fjárfrekasta einstaka framkvæmdin — jaðra við að vera það sem ég leyfi mér að kalla leikhús fáránleikans. Fyrir það fyrsta, herra forseti, eru efnahagslegar forsendur gjörbreyttar því miður til hins verra og ekki annað að sjá en að það muni taka nokkurn tíma að vinna sig út úr því. Þær eru gjörbreyttar og því miður langt frá því að vera vænlegar þó að framtíðarhorfur séu auðvitað góðar í okkar fagra og góða landi. Í annan stað eru hér á borðum þingmanna, sumra hverja a.m.k., og öllum aðgengilegar, umsagnir um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna eftir veirufaraldurinn og í ljósi áhrifa hans. Hér er ég að vísa til umsagna Sambands íslenskra sveitarfélaga til að mynda og Reykjavíkurborgar á hinn veginn við umsagnir um frumvörp sem hafa verið lögð fram til að bregðast við áhrifum veirufaraldursins. Þar er að finna greiningu og lýsingu á vægast sagt bágri fjárhagsstöðu sveitarfélaganna eftir þennan faraldur. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga eru raktar í einstökum atriðum breyttar forsendur varðandi fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og eftir ítarlega umfjöllun segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi framangreinds hefur stjórn sambandsins ályktað að mikilvægt sé að ríkissjóður komi að málum með fjölbreyttum almennum aðgerðum og með beinum fjárhagslegum stuðningi til að verja þjónustu og starfsemi sveitarfélaganna á landinu öllu.“

Þau sveitarfélög sem eru skrifuð fyrir þessu borgarlínuverkefni hafa augljóslega engar fjárhagslegar forsendur til þess, bara engar. Það sést mjög glöggt, herra forseti, af því sem fram kemur í umsögn Reykjavíkurborgar en þar segir, með leyfi forseta:

„Líklegt er að flest sveitarfélög muni glíma við verulega erfiðar fjárhagsaðstæður á þessu ári og næstu árum eins og ofangreind greining lýsir fyrir Reykjavíkurborg.“ — Það er mikil lýsing á því hvernig fjárhagur borgarinnar hefur versnað. — „Í aðgerðapakka 2 eða næsta aðgerðapakka vantar nauðsynlega að gera greiningar á fjármálum sveitarfélaga og koma með raunhæfar aðgerðir til að tryggja að þau geti staðið undir lögbundnum verkefnum sínum gagnvart íbúum og atvinnulífi.“

Herra forseti. Hvaða fjarstæða er það að vera að ræða einhverja borgarlínu upp á milljarðatugi eða miklu líklegar hundruð milljarða af hálfu ríkissjóðs sem er kominn í mun verri stöðu en hann var fyrir örfáum mánuðum og sveitarfélaga sem eru þannig á hnjánum að þau lýsa því sjálf að þau hafi ekki fé til að standa undir lögbundnum verkefnum? Þetta er náttúrlega slík fjarstæða að það tekur engu tali. Það er algerlega óboðlegt að bjóða þjóðinni upp á þetta. Það á bara að taka borgarlínun til baka og út úr þessari samgönguáætlun.

Ég þarf að fjalla nánar um þessar umsagnir, herra forseti, og bið um að vera skráður að nýju á mælendaskrá.