150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég var í síðustu ræðu að ræða aðeins um álitsgerð danska ráðgjafarfyrirtækisins COWI um borgarlínu. Þeir hafa komið því á framfæri að sú eftirspurn sem þarf að ríkja til að borgarlína muni bera sig sé ekki nægileg. Því þurfi að grípa til sérstakra aðgerða til að efla eftirspurn eftir þessum samgöngumáta, þessum nýja strætósamgöngumáta. Það er nauðsynlegt að við hlustum á ráðgjafarfyrirtæki sem þekkja vel til og einnig sérfræðinga á þessu sviði þegar við skoðum hvort þetta sé vænlegt verkefni. Þetta fyrirtæki segir að grípa þurfi til þvingunaraðgerða í raun og veru til þess að ná nægilegum farþegafjölda svo að verkefnið beri sig. Þá er lagt til að þessir almenningsvagnar fái forgang í umferðinni á kostnað fólksbíla auk aðhaldssamrar stefnumótunar í bílastæðamálum. Þetta er mjög athyglisvert.

Forgangurinn gerir það að verkum að verið er að neyða fólk til að fara af einkabílnum yfir í almenningssamgöngur vegna þess að það er alveg ljóst að einkabíllinn mun verða fyrir miklum töfum vegna borgarlínu. Það er verið að taka hluta af stofnvegakerfinu undir borgarlínu og það mun valda töfum þeirra sem ferðast um á einkabílum. Síðan er rætt um aðhaldssama stefnumótun í bílastæðamálum. Hvað þýðir það? Það á að fækka þeim þannig að það verður erfiðara um vik að fá bílastæði. Við þekkjum það að þegar við fáum ekki bílastæði þurfum við í fyrsta lagi að leita lengra í burtu og það eykur líkurnar á því að menn sjái ekki alveg tilganginn með því að fara á einkabílnum þegar engin eru bílastæðin. Það er sem sagt verið markvisst eða dulbúið, myndi ég segja, að þvinga fólk til að taka þennan samgöngumáta þrátt fyrir að Reykjavíkurborg og borgarstjórnarmeirihlutinn hafi lýst því yfir að þetta eigi bara að vera valkvætt. Það er eitthvað sem gengur ekki upp.

Hér eru mjög góðir punktar frá þessu danska ráðgjafarfyrirtæki sem sýna að það verður að fara í einhvers konar þvingunaraðgerðir til að koma fjöldanum í það horf, fjöldanum sem nýtir sér þennan nýja samgöngumáta, þennan nýja strætó og strætóleiðir, koma þessu í eitthvað sem heitir viðunandi horf svo hægt sé að segja að þetta sé nýtt með þeim hætti sem menn lögðu upp með.

Það er síðan í raun misskilningur að borgarlína sé vistvæn. Þetta kemur fram í grein sem Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður, hefur ritað um málið og hefur kynnt sér það mjög vel. Það er talað um að borgarlínuvagnar verði rafknúnir, sem er í sjálfu sér vistvænt, en þeir verða samt ekkert endilega vistvænni en rafbílar almennt. Sætanýting í þungum og stórum borgarlínuvagni þarf að vera mjög góð svo að orkunotkun á hvern farþega verði minni en hjá farþega í léttum rafbíl. Höfum í huga að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur einmitt lagt upp úr því að þetta sé svo umhverfisvænn samgöngumáti en það er verið að tala um hér til framtíðar, til 2040. Þá má nú ætla að ansi margir verði komnir á rafbíla hér á landi og í Reykjavíkurborg. Þeir eru að sama skapi umhverfisvænir og jafnvel umhverfisvænni en almenningsvagnarnir í ljósi þessa sem ég nefndi áðan. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég sé að tíminn er liðinn og óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.