150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg tilefni til að taka undir áhyggjur af því hvernig framkvæmdir við þennan pakka munu ganga. Ég tel að fyrir því séu lagðar ágætis vörður, eins og hv. þingmaður nefndi. Mig langar að spyrja hann hvort skilningur okkar á nokkrum atriðum sé ekki sambærilegur. Að mínu mati mátti skilja á ræðu hans að þetta væru allt saman mjög óljós atriði.

Í fyrsta lagi segir hann að Vegagerðin verði í veikri stöðu gagnvart Reykjavíkurborg. En það verður sérstök stjórn yfir verkefninu. Fjármálaráðherra skipar meiri hluta stjórnarinnar og sveitarfélögin minni hluta og þar af Reykjavíkurborg væntanlega einn af sjö stjórnarmönnum. Erum við ekki sammála um þetta? Þetta hefur því ekkert með Vegagerðina að gera.

Erum við ekki sammála um að meginverkefni ríkisins í þessu eru aukaakreinar fyrir almenningssamgöngur innan höfuðborgarsvæðisins? Við höfum ekki með gera skipulagsvaldið á þeim þáttum samgöngukerfisins í höfuðborginni sem tilheyra sveitarfélögunum.

Erum við ekki sammála um að þetta markar endalokin á áralöngu stoppi í framkvæmdum á þessum miklu og mikilvægu samgönguleiðum í höfuðborginni? Erum við ekki sammála því að Sundabraut, sem hefur verið sett til hliðar á undanförnum árum, er komin á dagskrá með samkomulaginu? Erum við ekki sammála um að það eru endurskoðunarákvæði sem m.a. fjalla um að samkomulagið falli úr gildi gangi ekki eftir það sem sveitarfélögin eiga að uppfylla í skipulagsmálum? Erum við ekki sammála um að það sé algjörlega skilyrt að ríkið komi ekki nálægt rekstrarkostnaðinum sem hv. þingmanni var tíðrætt um? Það er sveitarfélaganna að sjá um hann. Ég læt þetta duga í bili en það er af nógu að taka.