150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel reyndar, það er alla vega sá skilningur sem ég legg í málið, og get tekið undir að það er ástæða til að taka málið inn til nefndar til að árétta þessi atriði. En þetta er samt skýlaust það sem ég spurði að áðan. Ég spurði til að mynda um Sundabraut. Hún er komin á dagskrá. Hana hefur ekki verið hægt að ræða við Reykjavíkurborg á undanförnum mörgum árum en þarna er það orðið alveg skýrt að Sundabraut er hluti af þessu samkomulagi. Það er líka mikil upptalning á verkefnum í þessu samkomulagi sem ekki hafa komist á dagskrá við Reykjavíkurborg á undanförnum árum. Þess vegna segi ég að eftir áralangt stopp er kominn gluggi. Þetta hljótum við að geta verið sammála um. Það er endurskoðunarákvæði í þessu og ég lít svo á að þar komi inn í, ef ekki gengur eftir, það samkomulag sem hefur verið gert. Rekstrarkostnaðurinn, ég spurði um hann. Hv. þingmaður svaraði því ekki. En er það ekki alveg skýrt, og við komum inn á þetta í samgönguáætlun líka, að við komum ekki nálægt rekstri á þessu? Sveitarfélögin verða að gera það upp við sig. Það er auðvitað alvarlegt að það skuli ekki vera til eitthvert rekstrarmódel fyrir þetta þegar verið er að fara að kynna sætin í strætóskýlum í næstu viku hjá Reykjavíkurborg, en rekstrarmódel er ekki til. Það er hægt að taka undir margt af gagnrýninni og hún á rétt á sér.

Aðeins varðandi kostnaðaráætlunina. (Forseti hringir.) Getum við ekki verið sammála um það að kostnaðaráætlunin í þessu samhengi er bara með sama hætti og þegar við vinnum kostnaðaráætlun varðandi samgönguáætlun? Það er fyrirséð að stundum verða verk undir (Forseti hringir.) og stundum verða þau dýrari. En við höfum í sjálfu sér ekki úr öðru að moða í bili. Það verður auðvitað stjórnar félagsins að meta þetta og „eventúalt“ hefur verkefnum verið hent út fyrir sviga (Forseti hringir.) og þeim frestað vegna þess að kostnaðaráætlanir hafa ekki staðist.