150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum loks farin að tala hér um stofnun opinbers hlutafélags og uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Sá merki áfangi náðist fyrir skömmu að ríkið og öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu náðu merku samkomulagi um hvernig standa eigi að uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þarna koma að sveitarfélög sem stjórnað er víðs vegar að úr pólitíkinni og telja verður talsverð tíðindi að allir þessir aðilar og ríkið nái saman um það hvernig standa eigi að verkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Það er löngu tímabært að horfa þar til framtíðar og byggja upp trausta samgönguinnviði sem taka í senn mið af kröfum framtíðarinnar um loftslagsvænni samgöngumáta og þörf samfélagsins fyrir að byggja upp traustar og skilvirkar almenningssamgöngur. Um leið þarf auðvitað að huga að því að bifreiðar komist um höfuðborgarsvæðið. En það er nú einu sinni þannig að við þurfum að gæta að því að miðað við flestar spár mun bifreiðum fjölga talsvert á næstu árum og áratugum þó að kannski sé erfitt að spá langt inn í framtíðina í þeim efnum. Við þurfum því að gera það sem við getum til að hvetja almenning til að velja aðra samgöngumáta. Og það er akkúrat það sem felst m.a. í þessum samningi þar sem mikil áhersla er lögð á almenningssamgöngur, göngustíga, hjólastíga o.s.frv. Ég held að nauðsynlegt sé að gera þetta allt saman í senn.

Hér hafa orðið miklar umræður um einn þátt málsins fyrst og fremst, þær framkvæmdir sem ganga undir heitinu borgarlínan. Þar hefur margt verið sagt og kannski ekki allt mjög vel ígrundað. En í öllu falli reikna ég með að menn séu búnir að draga hér fram í löngum og miklum ræðum allt sem þeir telja málinu til foráttu. Þeir hafa verið færri sem hafa lagt í að fara í þessa umræðu þar sem einn flokkur hefur einokað hana með gagnrýni sinni og m.a. orðið til þess að lengja þingið. En hvað um það. Menn hafa sinn rétt til að tala og tala mikið eftir atvikum.

Hins vegar held ég að þetta sé mjög gott mál og mjög brýnt að við samþykkjum þetta frumvarp sem gerir ráð fyrir því að stofna félag um framkvæmdirnar allar til að halda utan um þær. Félagið er hluti af þeim samningi sem var gerður milli ríkisins og sveitarfélaganna og er bráðnauðsynlegur til að hafa form um allar þessar framkvæmdir, fjármögnun þeirra, skipulag, ráðstöfun lands og svo má lengi telja. Beðið er eftir því að þetta félag verði til svo að hægt sé að hefja undirbúning, og síðar framkvæmdir, af krafti í samræmi við samgöngusamkomulagið sem tekur til höfuðborgarsvæðisins.

Hér hafa verið nefnd rök sem varða fjármál og hér hafa komið upp vinir skattgreiðenda og titlað sig sem slíka. Ég reikna með að í því felist að aðrir þingmenn séu óvinir skattgreiðenda og þeir einir sem svona taka til máls beri hag skattgreiðenda fyrir brjósti og vilji hafa skikk í ríkisfjármálum. Svo er auðvitað ekki. Það á alltaf að fara vel með almannafé. Það á alltaf að fylgjast vel með útgjöldum. Það á alltaf að gera vandaðar áætlanir og það á alltaf að vera svigrúm til að gera breytingar ef í óefni stefnir. Ég sé ekki að með stofnun þessa félags og því að samgöngusamningurinn komist í framkvæmd sé þeim markmiðum stefnt í voða. En það er alveg rétt að það á alltaf að brýna menn að fara vel með almannafé. Það gildir í þessu verkefni eins og öllum öðrum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið. Ég tel afar brýnt að félagið verði að veruleika. Ríkisvaldið og umrædd sveitarfélög hafa gert með sér samkomulag um nauðsynlegan ramma og nauðsynlega umgjörð. Ég held að það beri að varast hér á hinu háa Alþingi að stíga einhver þau skref eða grípa til einhverra þeirra ráðstafana sem hleypa þessum samningi í uppnám og menn þurfa að gæta að því. Það væri hörmulegt ef þetta verkefni kæmist ekki af stað og kæmist ekki til framkvæmda. Ég styð því málið og vona að það verði afgreitt hér innan mjög skamms.