150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er tiltölulega nýsloppinn af fundi þannig að ég náði ekki að fylgjast með öllum umræðunum sem hafa átt sér stað í dag. Sömuleiðis missti ég af umræðunum hérna á laugardaginn og einnig af þorra umræðunnar í gær. Reyndar var ég svo heppinn að fá að vera á forsetastóli í smástund og hlýða á ræður hv. þingmanna Miðflokksins, sælla minninga.

Ég ætla að ræða um borgarlínu og almenningssamgöngur almennt. Ég er glaður að fá tvo hv. þingmenn Miðflokksins inn í þingsal, þrjá jafnvel, þetta batnar sífellt, (Gripið fram í: Fjóra þingmenn.) fjóra jafnvel, ég læt það liggja á milli hluta. Ég hef tekið eftir einu í þeim umræðum sem ég hef heyrt og fylgst með, ekki bara á þinginu heldur líka úti í samfélaginu, um borgarlínuna. Ég hef spjallað við einn og einn úti í samfélaginu um hana, bæði fólk sem er mjög hlynnt borgarlínu og fólk sem er mjög andvígt henni og svo fólk sem er einhvers staðar þar á milli sem ég held að langflestir séu satt best að segja, þrátt fyrir mikilvægi þessa verkefnis og þessa málaflokks.

Hér kemur mín takmarkaða greining, byggð á viti mínu og takmarkaðri getu minni til að draga ályktanir út frá þeim hluta alheimsins sem er mér aðgengilegur: Mér sýnist málið ekki snúast raunverulega um kostnað við borgarlínu. Mér sýnist það ekki snúast raunverulega um það hvort fólk sé hlynnt strætó eða finnist strætó alveg glataður kostur eða hvað. Ég held að það snúist um tíðaranda og menningu. Ég hygg nefnilega að Ísland hafi komist á koppinn, ef svo mætti að orði komast, á 20. öldinni, um svipað leyti og einkabíllinn svokallaði, stundum kallaður fjölskyldubíllinn núna, sem mér finnst skemmtilegt, sem þróaðist mjög hratt. Mjög víðtæk og mikil upptaka og notkun varð á þessu farartæki samhliða tæknilegri þróun og, vil ég meina, menningarlegri þróun Íslands. Það gerir það að verkum að mínu mati að tiltölulega stór hluti Íslendinga, og ekki síst Reykvíkinga, ofmetur mikilvægi þess að vera á hinum svokallaða einkabíl, ofmetur mikilvægi þess að vera á hinum svokallaða fjölskyldubíl eins og hann er stundum kallaður, og hefur ríka tilhneigingu til að gera lítið úr öðrum kostum. Ég held að þetta sé til komið vegna þess að við höfum í gegnum tíðina vorkennt okkur svolítið fyrir veðráttuna á þessu landi, eitthvað sem ég tel alla vega þessa dagana og síðustu ár, á mínum fullorðinsárum, tilefnislaust. Það er a.m.k. miklu verra veður í öðrum borgum sem ég hef búið í og mér finnst satt best að segja stundum hálfhlægilegt að hlusta á fólk kvarta undan reykvísku veðri. Það er fínt veður í Reykjavík, líka að vetri til, það er allt of dimmt að vísu en maður breytir því svo sem ekki. Erlendis geysa stormar. Það rignir og hvessir og er kalt erlendis. Það er snjór, klaki, hálka og líka slabb erlendis, í borgum þar sem strætó er notaður af fínu fólki, miðaldra fólki sem er komið á góðan stað í lífinu eftir ævistritið, er með bindi og í jakkafötum, og jafnvel, virðulegi forseti, með barnavagn, að hugsa sér. Það þykir bara ekkert tiltökumál en á Íslandi finnst mér við svolítið föst í því hugarfari að það sé algerlega afleitur kostur út af strætó. Ég tek líka eftir því að kvartanirnar koma fyrst og fremst frá þeim sem nota aldrei strætó eða hafa ekki notað strætó í 30–40 ár. Þess vegna vil ég segja við þá vini mína á Íslandi sem eru mjög á móti borgarlínu: Gefið þessu séns. Prófið bara taka strætó. Það er allt í lagi, það reddast alveg. Mætirðu yfirleitt á réttum tíma? Ekkert alltaf. Stundum lendir maður í umferðarkreppu eða umferðarteppu, umferðarkreppa er reyndar gott hugtak sem við ættum að nota meira. Stundum gerist eitthvað sem tefur fyrir manni og það getur alveg gerst í strætó og þegar maður er á hjóli, rétt eins og þegar maður er á hinum svokallaða fjölskyldubíl. Það er bara hluti af lífinu, virðulegi forseti.

Eitt finnst mér svolítið merkilegt þegar kemur að því hvað það á að taka ofboðslega langan tíma að taka strætó og hvað hann kemur sjaldan og allt þetta: Ef einhver þarf að mæta á fund, og segjum að viðkomandi búi í miðbænum eða Hlíðunum eða hvaðeina, einhvers staðar uppi í Ártúni eða í Hafnarfirði, hvað gerir viðkomandi? Jú, hann skipuleggur sig bara samkvæmt því og þykir það ekkert tiltökumál. Hvenær heyrum við fólk sem kemur of seint á nefndarfundi afsaka sig með því að það búi í Hafnarfirði? Það er ekki þannig, virðulegi forseti, vegna þess að fólk skipuleggur einfaldlega tíma sinn í samræmi við þann samgöngukost sem það notar hverju sinni. Það er alveg eins með strætó, það þarf einfaldlega að skipuleggja sig í samræmi við hann, líka ef maður er á hjóli, líka ef maður er á bíl, líka ef maður er fótgangandi. Þetta held ég að sé atriði sem gleymist að gera ráð fyrir í íslenskri menningu vegna þess að einkabíllinn, eða fjölskyldubíllinn eða hvað við eigum að kalla hann, hefur verið allsráðandi í samgöngum. Fólk hefur jafnan einungis þurft að skipuleggja sig miðað við einn tiltekinn farkost, fyrst og fremst, nefnilega hinn svokallaða fjölskyldubíl. En þegar komnir eru fleiri kostir, fleiri möguleikar, þá þarf að hugsa þá hluti upp á nýtt. Það er allt í lagi, þá bara gerir maður það.

Ég stríði stundum vinum mínum með því að segja að mér finnist fargjaldið í strætó allt of lágt. Það er aðallega gert til þess að stríða þeim en reyndar væri það mér alveg að meinalausu að gjaldið væri ekkert. Ég tek eftir því í umræðunni að það er mikil krafa um að ókeypis sé í strætó. Ég ætla ekki að setja mig upp á móti því beinlínis en ég myndi vilja sjá einhverjar kostnaðargreiningar á því. Mér skilst að það hafi verið athugað margsinnis og það myndi hreinlega ekki reynast mjög skynsamlegt.

En hvaðan kemur krafan, virðulegur forseti? Strætó er nú þegar mjög ódýr kostur. Ég þekki það af reynslu. Ég á bíl, ég nota strætó, ég á rafskottu, ég geng, ég nota leigubíla af og til, reyndar minna og minna því að hinir kostirnir sem ég hef aðgang að eru orðnir það góðir. En hvaðan kemur krafan um að hafa ókeypis í strætó? Ég held að hún sé ekki sprottin af umhyggju fyrir fólki sem hefur ekki efni á að taka strætó. Það fólk fær í fyrsta lagi afslátt, aldraðir og öryrkjar, í strætó. Við gætum jafnvel haft ókeypis fyrir þá hópa í strætó, kannski væri það einhver lausn. En það leysir ekki vandann vegna þess að það er ekki vandinn sem fólk er að reyna að leysa þegar það stingur upp á því að hafa ókeypis í strætó. Það sem ég heyri þegar einhver stingur upp á því að hafa strætó ókeypis er: Strætó er einskis virði. Því er ég ósammála, virðulegi forseti.

Í öðru lagi er einhvern veginn gert ráð fyrir að strætó sé svo glataður kostur að hann sé einungis fyrir fólk sem getur ekki mögulega eignast eða rekið fjölskyldubíl. Ég er líka ósammála því. Ég ítreka að ég er ekkert á móti því að lækka fargjaldið í strætó eða jafnvel afnema það ef það reynist skynsamlegt en það er ekki vandinn sem þarf að leysa. Vandinn sem þarf að leysa er hugarfarsvandi og menningarvandi og snýr að viðhorfi fólks til almenningssamgangna, sér í lagi strætós, og þess hvernig búið er að upphefja bölmóðinn yfir því hvernig strætó virkar, og stundum klikkar, á sama tíma og fjölskyldubíllinn er margrómaður af ástæðum sem mér eru óljósar því að persónulega finnst mér skemmtilegra að hlusta á hljóðvarp eða útvarp eða jafnvel tónlist eða lesa eitthvað meðan ég fer á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar frekar en að stara á malbik, bara til þess að tóra ferðina. En það er bara ég.

Þegar við lítum fram á veginn í samgöngumálum finnst mér að við eigum líka að líta til loftslagsmála. Það er annað sem ég held að aðgreini svolítið stuðningsmenn og andstæðinga strætós, þ.e. hversu alvarlega fólk tekur loftslagsbreytingar, hversu mikið það telur mannfólk bera ábyrgð á loftslagsbreytingum og síðast en ekki síst hversu stóran hluta það telur bifreiðar og aðra samgöngumáta eiga í öllu því dæmi. Þegar kemur að loftslagsbreytingum skiptir allt máli sem við gerum. Þrátt fyrir að rafbílavæðing sé tiltölulega langt á veg komin og muni bara batna, geri ég ráð fyrir, er það enn þá dýr kostur og sömuleiðis breytir það ekki því að það þarf alltaf að hafa fleiri og fleiri bíla á götunum miðað við farþega vegna þess einfaldlega að þeir eru stórir og plássfrekir. Almenningssamgöngur eru það síður, þ.e. þegar þær eru notaðar.

Vel á minnst: Hér er stundum kvartað undan því, tók ég eftir í einhverri ræðunni, að enginn noti strætó, það séu tómir vagnar úti um allar trissur, eitthvað svoleiðis. Í fyrsta lagi er það bara ekki rétt. Þeir eru eðlilega tómir þegar það er ekkert að gera, alveg eins og göturnar eru stundum auðar þegar enginn keyrir á þeim. Þær eru t.d. almennt auðar klukkan þrjú og fimm um nótt en ekki þegar fólk er á leiðinni í vinnuna eða skólann eða á leiðinni heim þaðan og ekki strætó heldur. Þannig á það að vera og þannig er eðlilegt að það sé. Fyrir utan það, vegna þess að núna hefur blessunarlega verið farið í að hafa víða forgangsakreinar fyrir strætó, þá getur maður verið fljótari á strætó en á hinum rómaða fjölskyldubíl, vegna þess að strætisvagninn kemst leiðir sem hinn rómaði fjölskyldubíll kemst ekki eða síður.

Undantekningarlaust þegar ég held þessa ræðu á netinu heyri ég í fólki sem telur sig engan veginn geta notað strætó. Það fólk er oft mjög reitt af ástæðum sem mér eru pínu óljósar en ég er með tilgátu um það hvers vegna það er reitt. Fólk er reitt vegna þess að því er almennt illa við tilætlunarsemi. Því er illa við að fólk sé að blaðra um mál þess án þess að hafa hundsvit á þeim. Og það er rétt að ég þekki ekki samgöngumál hvers einasta einstaklings í Reykjavík, auðvitað ekki. Það þarf hver einstaklingur að máta fyrir sig. Allir stórnotendur strætós þekkja að ef þeir flytja eða börn þeirra skipta um dagheimili eða skóla eða eitthvað því um líkt þá þarf að endurmeta hvaða kostir henta, og það er menningarlegt atriði að við venjumst því. Það er allt í lagi að búa á einum stað, nota strætó í sumt og einkabíl í annað. Það má. Það er hægt að nota rafskottur mjög mikið nú til dags. Ef það er eitthvað flókið hugtak þá eru rafskottur þessi hlaupahjól sem eru orðin vinsæl og eru mikil snilld að mínu mati. Það þarf hver og einn að meta fyrir sig.

Ég ætla ekki að ítreka sögu sem ég sagði í fyrri ræðu af því þegar ég fór með ungbarn úr norðurparti Hlíðahverfis upp í útjaðar Árbæjar og fór svo sjálfur aftur niður í bæ, kom við heima og skilaði kerrunni og var mættur fyrir klukkan níu. Ég hefði getað mætt á nefndarfund ef þingið hefði ekki verið í sumarleyfi. Nú er ég reyndar búinn að rifja upp söguna, andstætt því sem ætlaði að gera. En alla vega var þetta ekkert mál miðað við það hvar ég bjó á þeim tíma, miðað við það hvar barnið mitt var í pössun á þeim tíma og miðað við það hvar ég vann á þeim tíma. Það getur vel verið að þetta hefði verið ómögulegt ef vinnan mín hefði verið staðsett annars staðar, t.d. í Grafarvogi. Kannski hefði það verið miklu erfiðara. Það má vel vera. Það þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig út frá aðstæðum hvers og eins. Það er ekkert að því. Það er bara ekkert að því. Það eina sem ég er að biðja um er að gefa því séns en ekki ákveða fyrir fram að strætó sé algerlega vonlaus kostur bara vegna þess að byggst hefur upp bölmóður í marga áratugi yfir því hvernig strætó var 1970 eða eitthvað álíka. Hann er ekki þannig lengur. Hann er öðruvísi í dag og að mínu mati hið mesta þarfaþing, góður kostur. Ég segi fyrir sjálfan mig, ég er á fínum tekjum, eins og fólk ætti að vita, ég á bíl, ég gæti alveg notað bíl en ég vil frekar nota strætó vegna þess að það er þægilegra. Ég geri það ekki bara vegna þess að það er ódýrara, þótt það eigi kannski einhvern þátt í því, samt eiginlega ekki. Ég held að ég myndi borga meira fyrir að nota strætó vegna þess að það er þægilegra. Í strætó er hægt að gera eitthvað. Það er hægt að lesa á löngum ferðum, eins og ég þurfti að venjast á tímabili, alveg um 40–45 mínútna ferðum. Þá er bara hægt að hanga í tölvunni og vinna, lesa, forrita, eða hvað sem fólk gerir í tölvum nú til dags. Það get ég ekki þegar ég er á bíl. Mér finnst það argasta tímasóun að vera í bíl. Jafnvel þótt bílferðin sé hugsanlega nokkrum mínútum styttri en sumar strætóferðir þá nýtist tíminn alveg bölvanlega. Maður situr við stýrið og horfir á malbik. Ef fólk er of utan við sig leggur það sjálft sig og annað fólk í hættu. Til hvers að leggja það á sig? Af hverju ekki að slappa af í strætó? Gefið því alla vega séns. Kannski virkar þetta ekki fyrir þig, kæri áhorfandi, gott og vel, allt í góðu, en það virkar fyrir fleiri en fólk heldur og gæti virkað miklu betur ef, eða þegar eins og ég leyfi mér að segja, farið verður eftir ráðleggingum sérfræðinga um það hvernig hægt er að breyta skipulagi Reykjavíkur og fyrirkomulagi strætós þannig að hann henti miklu betur fyrir miklu stærri hóp af fólki.

En þá kemur annað inn í umræðuna sem er líka mjög sterkt, finnst mér, í mannssálinni. Það er að gera ráð fyrir að með því að bæta hag eins þurfi nauðsynlega að veikja hag annars. Þannig virkar raunveruleikinn ekki, virðulegi forseti. Það að einhver græði eitthvað þýðir ekki að annar tapi, enda lendum við mjög fljótt í mótsögnum merkantílismans í öllum þeim pælingum. Það er alveg hægt að bæta strætósamgöngur án þess að það komi niður á bílasamgöngum. Það er ekki víst að það verði alltaf þannig og það er allt í lagi. En það er ekki samasemmerki þar á milli og það er margt sem kemur til. Í fyrsta lagi framkvæmdir sem auka einfaldlega burðargetu veganna og það eru líka framkvæmdir sem breyta eðli þeirra þannig að strætó eigi auðveldara með eitthvað sem hann átti ekki jafn auðvelt með áður. Ef fleira fólk fer að nota strætó hreinsar það augljóslega upp svæði á götunum fyrir einkabíla og hægt verður að minnka umferð, sem dæmi. Það er ekki augljóslega þannig að ef við bætum í strætó þá heftum við einkabílinn. Það er ekki þannig.

Annað sem er mjög sterkt í mannlegri sál er að gera uppreisn gegn því að láta segja sér hvernig maður eigi að lifa lífi sínu. Það skil ég mætavel, virðulegur forseti, verandi Pírati og argasti óþekktarpjakkur samkvæmt því. Mér er mjög illa við að mér sé sagt hvernig ég eigi að lifa mínu einkalífi. Ég tek það reyndar ekki í mál og er líklegur til að gera uppreisn bara til að sýna fram á að ég ræð mínu lífi sjálfur og ætla ekki að rökræða það neitt. Þá ergju skil ég mjög vel, ef fólk fær það á tilfinninguna að verið sé að troða strætó ofan í kokið á því, rífa af því einkabílinn og eitthvað svoleiðis. En það er bara ekki það sem borgarlínan snýst um eða það sem breytt skipulag snýst um. Ég veit að fólk í allri pólitískri baráttu er misreitt og segir misjafnlega djarfa og brjálaða hluti og auðvitað eru til einhverjir stuðningsmenn strætós og stuðningsmenn borgarlínu sem geta sagt eitthvað sem lætur fólki líða svona. Það er samt ekki markmiðið með borgarlínu.

Það er hins vegar markmið með borgarlínu og markmið Reykjavíkurborgar almennt að draga úr útblæstri. Við verðum að gera það. Það liggur fyrir. Það er ekki til þess að taka neitt af neinum, það er bara staðan sem við erum í. Loftslagsbreytingar eru raunveruleg ógn og það er skrýtið að þurfa að vera einhvern veginn að margsegja það í pontu Alþingis, það á bara að liggja fyrir. Það er manneskjunni að kenna að verulegu leyti og við getum gert ákveðna hluti í því og þurfum að gera ákveðna hluti í því. Það þýðir fórnir fyrir okkur öll. Það þýðir líka færri strætóferðir. Það þýðir minna dót. Þannig er það. Það er ekkert gaman að segja það. Það er ekkert gaman að hlusta á það og það er ekkert gaman að hlusta á einhvern segja manni að maður þurfi að eiga minna af dóti eða nota bílinn sinn minna eða strætó minna eða gera minna af einhverju sem maður vill gera. En þannig er nú bara heimurinn sem við búum í, virðulegi forseti, að við fáum ekki allt sem við viljum. Þegar við tökum of mikið út þá skuldum við stundum meira en við getum borgað til baka og þar erum við þegar kemur að loftslagsbreytingum. Við erum búin að taka út meira en við ráðum við að borga og við þurfum að taka okkur verulega á til að eiga séns á því að komast hjá mjög miklum hamförum. Að mínu mati erum við reyndar komin fram yfir þann tíma. Við munum upplifa mjög miklar hörmungar af völdum loftslagsbreytinga á þessari öld og ég vil meina að þær séu þegar hafnar. Það er erfitt, reyndar ómögulegt, að taka eitthvað eitt fyrir og segja að það komi beinlínis af stað loftslagsbreytingum. Alveg eins og ef einhver fær lungnakrabbamein, þá getur maður ekki sagt að það hljóti að vera vegna þess að viðkomandi varð fyrir óbeinum reykingum eða þessu eða hinu, þarna eru bara áhættuþættir. Áhættuþættirnir þegar kemur að loftslagsbreytingum eru orðnir algerlega yfirþyrmandi og algjörlega óumflýjanlegir. Það þýðir fórnir, alveg sama hvað okkur finnst um þægindi okkar þegar kemur að samgöngumáta.

Nú er tíminn liðinn og það hentar vel vegna þess að ég hef ekki meira að segja í bili og er búinn að særa tvo hv. þingmenn Miðflokksins upp í andsvör við mig. Ég bið bara aftur um það að fólk gefi strætó séns. Það þurfa ekki allir að vera jafn ástfangnir af strætó og ég en ég vona að fólk gefi honum séns, það kostar ekkert, eða jú, það kostar 470 kr., eitthvað svoleiðis og er alveg þess virði.