150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég trúi á verkaskiptingu og það hefur ekki verið í mínum nefndarstörfum að fara djúpt ofan í kostnaðinn á þessu. Það hefur verið í verkahring hv. 11. þm. Reykv. s., Björns Levís Gunnarssonar, og ég skal bara spyrja hann út í þetta og kynna mér þessi gögn aðeins betur. Ég ætla ekki að kynna mér það allt saman, mér skilst að þetta sé óttalegt fargan, en skal kynna mér þetta af heilum hug.

Hvað varðar að hafa ókeypis í strætó held ég að hv. þingmaður sé að reyna að leysa rangt vandamál með því. Ég er ekkert á móti því, ég er alveg til í að hafa ókeypis í strætó eða ódýrara. Ég held bara ekki að vandinn sé sá að fólk prófi ekki strætó af ótta við einhvern kostnað. Ég held að það geri það ekki vegna þess að það er búið að heyra núna áratugum saman um að hann mæti aldrei á réttum tíma, sé alltaf of seinn eða allt of snemma og leiðirnar séu alveg ómögulegar og þetta taki allt of langan tíma. Að mínu viti, virðulegi forseti, er aðalvandamálið þessi ímynd og það þarf að uppræta hana vegna þess að hún er röng. Miklu frekar en að hafa ókeypis myndi ég auglýsa appið. Fyrir einhverju síðan var erfitt að borga í strætó vegna þess að strætó á Íslandi gaf af einhverjum ástæðum ekki til baka. Hann gerir það í Finnlandi og ekki nein teljandi vandræði við það. Maður gat rétt þeim 20 evru seðil og fengið klink til baka eins og í búð, ekkert mál. Þetta var ekki hægt og er ekki hægt á Íslandi af ástæðum sem mér hafa alltaf verið huldar og þess vegna er það vesen. Maður þarf að vera með akkúrat rétta skiptimynt á sér til þess að nota strætó með engum fyrirvara. Þetta er eitt af vandamálunum sem voru. Þetta er ekki vandamál lengur í dag með appinu. Þú tengir það bara við kort og getur séð hvar strætóinn er, hvort hann er of seinn og hvaðeina og skipulagt ferðina og borgað með appinu sjálfu. Ég myndi segja að leiðin til að fá fólk til að prófa strætó sé einfaldlega með því að gera eins og ég gerði í ræðu minni: Biðja fólk um að prófa strætó.