150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef markmið yfirvalda væri að eyða 50 milljörðum í almannatengsl myndi ég nú halda að eitthvað skynsamlegra en borgarlína kæmi út úr því. (BergÓ: … búin að eyða 9.) Ég held að það sé ekki eina markmiðið. Og til að svara spurningu hv. þingmanns um hvort ímyndin muni breytast við það að byggja borgarlínu held ég ekki að það eitt og sér breytist nema þá væntanlega mjög hægt með því að fleiri og fleiri öðlist reynslu af strætó, og jákvæða vonandi, og tali um þá jákvæðu reynslu og minna um neikvæðu reynsluna frá 1970 og 1980 eða hvenær það svo sem var sem strætó var glataður.

Ég hygg að þess vegna sé það ákveðið ábyrgðarhlutverk þeirra sem taka þátt í umræðunni að bölsótast ekki út í strætó nema það sé þá byggt á einhverjum raunverulegum gögnum og nýlegri reynslu. Ég tek eftir að gagnrýnin byggist oft á gamalli reynslu frá því hvernig strætó var áður en við höfðum GPS, áður en við vorum með snjallsíma og áður en leiðakerfið varð eins og það er í dag. Eflaust var það einhvern tímann alveg glatað, það má vel vera.

Hvað varðar vandamálið sem hv. þingmaður nefnir, sem getur verið raunverulegt en er það ekki alltaf, það að stundum þarf maður að ná strætó sem fer sjaldan og hægt og síðan öðrum sem fer hratt og oft og það þarf að láta þessa strætóa hitta saman. Vissulega er smá æfing fólgin í því en yfirleitt er það ekki vandamál. Reyndar skal ég segja hvernig ég nota strætó almennt. Ég tek bara þann næsta sem fer sirkabát í áttina sem ég er að fara og gríp svo þann næsta sem nálgast þegar ég sé hann. Ég er reyndar farinn að þekkja leiðakerfið nógu vel til að geta þetta á ákveðnum leiðum. Þetta sýnir líka að strætó er orðinn það góður í dag að ef maður þekkir leiðirnar nógu vel getur maður á sumum leiðum beinlínis bara teikað vagnana, bara fundið næsta strætó sem fer sirkabát niður á Hlemm. Síðan finnur maður annan strætó þar. Margir strætóar fara víða og það er alveg hægt að gera þetta, alla vega á sumum leiðum, fyrir utan það að eftir því sem greiningar á leiðunum batna, t.d. með notkun GPS-tækni og fleiru í þeim dúr, ég tala nú ekki um ef almenningur væri til í að búa til gögn um slíkt, (Forseti hringir.) væri hægt að bæta leiðakerfið (Forseti hringir.) enn þá meira miðað við raunnotkun á strætó. Það er fullt af tæknilegum tækifærum gagnvart strætó (Forseti hringir.) sem voru ekki til staðar fyrir bara tíu árum, jafnvel þrjátíu.