150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:09]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Stærsta einstaka verkefnið sem þar er undir er þessi svokallaða borgarlína. Gert er ráð fyrir því að til hennar verði varið af opinberu fé tæpum 50 milljörðum kr., 49,6 ef maður tekur töluna sem liggur fyrir í skjölum málsins. Það má nú segja ýmislegt um það.

Herra forseti. Þetta mál er náttúrlega vanbúið þegar af þeirri ástæðu að þessi svokallaða borgarlína er ekki vel skilgreint fyrirbæri. Það liggja ekki fyrir þau skjöl og greiningar sem verður að gera kröfu um þegar ráðist er í framkvæmdir og fjárfestingar, ekki síst í þeim fjárhæðum sem hér er um að tefla. Nægir að nefna að það er ekki einu sinni fyrir hendi rekstraráætlun fyrir þetta fyrirbæri, svo ég grípi nú til orðs sem ítrekað hefur verið notað í ræðu af hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Sigríði Á. Andersen, þannig að málið er ekki fullbúið. Það hafa komið fram ábendingar um að eins og það er lagt upp rekist það með alvarlegum hætti á lög um skipan opinberra framkvæmda og þar er enn ein ástæða.

Ég vil sömuleiðis nefna það, herra forseti, að það vantar að fá álit aðila á þessu máli. Það voru sendar út 50 umsagnarbeiðnir og sex umsagnir bárust. Umsagnarbeiðnirnar voru flestar sendar út 12. maí og með fresti til 22. maí, þ.e. í tíu daga þegar hlýtur að verða að gera ráð fyrir a.m.k. tveggja til þriggja vikna fresti til að veita umsagnir um jafn viðamikið mál og þetta.

Ég sakna þess mjög, herra forseti, að ekki skuli liggja fyrir álit til að mynda lögreglunnar sem þarf að geta komist greiðlega um borgina, slökkviliðsins sem sömuleiðis þarf að geta komist hratt og örugglega í gegnum borgina vegna eldsvoða og vegna verkefna sinna við sjúkraflutninga. Hvar eru umsagnir og álit þessara aðila á þessari borgarlínu og áhrifum hennar á greiðar ferðaleiðir fyrir lögreglubifreiðar og sjúkrabifreiðar og slökkvibifreiðar? Þetta vantar algerlega inn í þetta mál.

Herra forseti. Sömuleiðis er hér fjöldi fólks sem hefur atvinnu af því sem tengist því að geta farið um borgina. Ég sakna þess t.d. mjög að ekki skuli liggja fyrir álit leigubifreiðastjóra sem annast mjög mikilvæga þjónustu í þágu þeirra sem þurfa að komast á milli staða, þeir veita þjónustu við aldraða og öryrkja og allt þetta nokkuð. Síðan er náttúrlega allt fólkið sem þarf að geta farið um borgina vegna þess að það sinnir heimaþjónustu við aldraða. Það eru t.d. hjúkrunarfræðingar sem koma á heimili aldraðra og sækja mörg þeirra heim á degi hverjum vegna sinna starfa. Það eru sjúkraþjálfarar, herra forseti. Það er fólk sem er með matarsendingar. Það er fólk sem kemur til að sinna félagslegri þjónustu á heimilum fólks. Á þetta fólk að fara vegna sinna starfa með borgarlínu á milli þessara heimila eða hvernig er þetta eiginlega hugsað? Hver eru viðhorf þessara aðila sem ég hef hér nefnt?

Það mætti náttúrlega nefna miklu fleiri en það vantar alveg inn í þetta mál umsagnir og álit frá þessum aðilum. Það skýrist af því að þetta mál kemur seint fram og veittur var skammur frestur til að veita umsagnir þannig að þetta mál er náttúrlega ekki fullnægjandi á nokkurn hátt. Það stenst engar efniskröfur og engar formkröfur.