150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Þegar frá var horfið var ég að ræða um greinargerð þessa frumvarps og kaflann um samráð. Það er nánast kostulegt að lesa þann kafla en sérstaklega síðustu setninguna. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi var ekki haft samráð um drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda.“

Við höfum ekki farið varhluta af því að það er ekki mikill vilji til að ræða þetta mál af hálfu þeirra sem leggja það fram, alla vega ekki þeirra sem eru hér í þinginu og segjast þó styðja málið. Það er líklega vegna þess að þetta fólk telur að umræða um málið og meiri upplýsingar gagnist því ekki, enda höfum við, þeir þingmenn sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, fært fram ýmis rök fyrir því hvers vegna þetta gangi alls ekki upp, sé í rauninni stórvarasamt eilífðarvandamál sem sé verið að festa í sessi hér en því hefur ekki verið svarað. Það tel ég að hljóti að vera af sömu ástæðu og menn vildu ekki setja þetta í samráðsgáttina, þeir vilji forðast umræðu um málið og reyna einfaldlega að keyra það í gegn með sem minnstri umræðu svoleiðis að staðreyndir málsins komi síður í ljós, enda hvers vegna skyldi liggja á þessu eins og notað er hér sem rök þegar menn eru þegar byrjaðir að starfa eins og þingið hafi samþykkt þetta? Það er greinilegt að það er fyrst og fremst litið á þingið sem einhvers konar afgreiðslustofnun, a.m.k. hvað þetta mál varðar, enda er nú verið að kynna hönnun á stólum fyrir biðskýli borgarlínu án þess að það sé búið að gera rekstraráætlun, án þess að kostnaður við framkvæmd hennar liggi fyrir og án þess að Alþingi sé búið að samþykkja, en menn setja upp sýningu í Ráðhúsinu um borgarlínuna og kynna hönnun á stólum fyrir biðskýlin.

Þetta er allt á sömu bókina lært. Það er stöðug sýndarmennska en mjög lítið um rök að því marki að þeir sem styðja þetta mál treysta sér ekki til að verja það hér í þingsal.

Þá að kaflanum um mat á áhrifum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar að auki er stefnt að eftirfarandi markmiðum: Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.“

Skilvirkum og hagkvæmum? Hver er skilvirknin í þessu máli þegar fyrir liggur að það eigi að taka eina akrein í hvora átt af umferð á helstu samgönguæðum borgarinnar og þrengja þar með að annarri umferð, því er beinlínis lýst stundum sem markmiði að þrengja að annarri umferð? Hver er skilvirknin í því að á sama tíma og menn tala um að koma á nýju ljósastýringarkerfi, hátæknilegu ljósastýringarkerfi til að ná hámarkshagkvæmni í ljósastýringu, þá eigi að setja borgarlínu í forgang á öllum ljósum og rugla þar með allt ljósastýringarkerfi höfuðborgarsvæðisins? Með öðrum orðum gera það ómögulegt að koma á þessu hátæknilega ljósastýringarkerfi til að ná hagkvæmni þar.

Og hver er hagkvæmnin í framkvæmd sem menn í fyrsta lagi vita ekki hvað muni kosta? Þeir tóku dæmi af einhverjum framkvæmdum erlendis sem hefðu átt að kosta 1,15 milljarða kr. á kílómetra. En hver var kostnaður þessara verkefna í raun? Í flestum tilvikum fór þetta tvöfalt, þrefalt, fjórfalt, jafnvel fimmfalt fram úr áætlun. Samt leyfa menn sér að kasta því fram að af því að einhvers staðar í útlöndum hafi menn ætlað að láta kílómetrann kosta 1,15 milljarða þá sé það forsenda áætlunar hér í þessari gríðarlega löngu borgarlínu. Gleymum því ekki að fyrsti áfanginn, þessir 13 kílómetrar, er álíka langur og öll borgarlínan er í Edinborg í Bretlandi. Öll borgarlínan þar, fyrsti áfanginn hér. Það verkefni varð frægt. Það varð frægt vegna tafa og vegna framúrkeyrslu í kostnaði, herra forseti.

Ég sé að ég næ ekki að klára kaflann um mat á áhrifum og bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.