150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta ágæta andsvar og gott að hann kom inn á þetta vegna þess að í fjárlaganefnd í gærkvöldi var nefnilega haldinn mjög mikilvægur fundur þar sem kom fram sjónarmið hæstaréttarlögmanns, sem var gestur fundarins og er einnig löggiltur endurskoðandi og hefur komið að fjölmörgum verkefnum af þessu tagi. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að í raun og veru væri málið þannig vaxið að það væri ekki samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Það þurfi m.a. að fara í lögbundna frumathugun. Lögin eru mjög skýr hvað þetta varðar. Ég verð að segja að ég hefði talið eðlilegt, í ljósi þessa fundar, að menn færu þá leið að fresta þessu máli og fara í þá frumathugun sem kveðið er á um í II. kafla laga um skipan opinberra framkvæmda, sérstaklega í 3. og 4. gr., og stofna síðan þetta félag. Þessi ágæti gestur kom inn á það að í raun og veru væri verið að byrja á öfugum enda og það er það sem er athyglisvert við þetta. Það eigi sem sagt að byrja á frumathugun eins og lögin kveða á um og einnig er talað um að gera samanburð á þeim kostum sem koma til greina, rekstraráætlun verði að liggja fyrir o.s.frv.

Þetta eru hlutir sem við höfum ekki séð, ekki séð rekstraráætlun sem dæmi, og við höfum nefnt það hér sérstaklega. Þannig að sá sem framkvæmir, sem er í þessu hlutfalli ríkissjóður, hann er 75% eigandi, eigi að gera sína eigin frumathugun, það er í anda laganna.

Ég verð að segja það, hv. þingmaður, að mér fannst að ráðuneytið ekki vera nógu skýrt með þetta og ég er algerlega á því og sé ekki að það séu neinar tafir á þessu verkefni að menn vandi þennan undirbúning.