150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Bara til að loka umræðunni um vandasamt hlutverk forseta þá hefur verið búið til sérstakt flækjustig á síðustu misserum sem snýr að því að meta hvort samflokksmenn séu sammála eða ekki þegar kemur að andsvörum, en það er síðari tíma mál að leiða það í jörðu.

Ég kem hér upp í tengslum við umræðu um stofnun opinbers hlutafélags vegna framkvæmda sem tengjast samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Ég var búinn að fara yfir í hvaða röð ég ætlaði mér að fara í gegnum efnisatriði málsins en ég ætla aðeins að víkja frá þeirri röð núna og koma inn á atriði sem mér þykir mikilvægt að sé haldið til haga í þessari umræðu. Það er auðvitað þannig að þetta lagafrumvarp gengur að miklu leyti og fyrst og fremst út á það að ramma inn samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum sem var undirritað 26. september 2019 af sveitarstjórum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Eins og oft er þá eru ekki bara hætturnar í því sem skrifað er í samkomulagið heldur eru hætturnar líka í því sem ekki er skrifað í samkomulagið og skilið er eftir til síðari tíma túlkunar. Þess vegna hef ég talið mjög mikilvægt að í nefndaráliti, eða eftir atvikum framhaldsnefndaráliti fjárlaganefndar, verði skerpt á skilningi ákveðinna hluta. Það má kalla þetta girðingar, að það verði settar upp girðingar, annars vegar hvað varðar fjárhagsleg samskipti ríkissjóðs og sveitarfélaga og hins vegar sveitarfélaganna og þessa fyrirtækis eða fulltrúa sveitarfélaganna þar inni. Ég held að það sé að skerpast á þeim skilningi að ekki verði opinn krani úr ríkissjóði þarna inn ef framkvæmdahluti verkefna fer fram úr áætlun því að það yrði mjög alvarleg staða. Verkefni eins og, svo ég nefni nú eitt flókið verkefni sem er rammað hérna inn, stokkur á Miklubraut er gríðarlega flókið og reynslan kennir mönnum að þar verða ófyrirséðir hlutir, bæði í tíma og kostnaði í miklu meira umfangi en í hefðbundnum vegagerðarverkefnum.

Það þarf að skerpa á því að þarna sitji ríkissjóður ekki uppi með viðbótarreikninginn. Staðreyndin er sú að í þessum 120 milljarða framkvæmdapakka sem nú er rammaður inn koma 105 milljarðar af þessum 120 milljörðum með einum eða öðrum hætti úr ríkissjóði því að sá hluti sem er ætlað að fjármagna með svokölluðum flýtigjöldum er alveg úti í vindinum enn þá og ekkert frumvarp komið fram um hvernig á slíku yrði haldið. Þannig að öll ábyrgðin liggur ríkisins megin hvað þá 60 milljarða varðar. Það sem við í Miðflokknum viljum þess vegna tryggja er að það verði ekki sóttar ótæpilegar upphæðir í ríkissjóð til þess að klára fyrst framkvæmdahlutann og þá muni aðilar samkomulagsins segja: Það er búið að fjárfesta svo mikið í þessu. Það getur náttúrlega ekkert annað komi til greina en að ríkið komi að rekstri borgarlínunnar. En ég vil minna á það að í meirihlutaáliti hv. umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun, sem nú er útrædd og bíður atkvæðagreiðslu, er sérstaklega hnykkt á því að almenningssamgöngur innan sveitarfélaga séu á ábyrgð sveitarfélaganna.

Aðrar girðingar, fyrirvarar eða áréttingar sem ég tel nauðsynlegt að verði hnykkt á í skipulagsmálum er að sveitarfélögin þvælist ekki, afsakið orðbragðið, fyrir framkvæmdum sem ætlunin er að koma áleiðis. Þarna hef ég sérstakar áhyggjur af einu atriði sem er lagning Sundabrautar. Lagning Sundabrautar er ekki eitt af áhersluatriðum samkomulagsins en í framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar segir, með leyfi forseta:

„Við útfærslu verkefna framkvæmdaáætlunarinnar verði sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta, svo sem Sundabrautar, inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.“

Þarna hræða sporin í skipulagslegum samskiptum Vegagerðar og ríkis við höfuðborgina og þess vegna tel ég mikilvægt að á þessu verði hnykkt.

Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að verða settur aftur á mælendaskrá og mun ég þá taka til við áður skipulagða yfirferð.