150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:13]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar í þessari ræðu að koma aðeins inn á það sem nefnt var í ræðum og andsvörum áðan um það sem kom fram við gestakomu í fjárlaganefnd í gærkvöldi. Þar var sú athugasemd gerð af sérfræðingi sem kom fyrir nefndina að frumathugun þyrfti að liggja fyrir áður en farið er í verkefni eins og þetta um opinberar framkvæmdir, en hún er ekki uppi á borðinu. Eins og viðkomandi komst að orði er byrjað á öfugum enda og það vantar aðgerðaáætlun. Það vantar rekstraráætlun. Það vantar frumathugun eins og ég sagði áðan. En samt á að keyra málið í gegn. Samt á að koma þessu áfram.

Eins og komið hefur líka fram margoft var þetta mál ekki inni á samráðsgátt stjórnvalda. Þetta stóra mál sem ætti að vera sjálfsagt að birta þar vegna þess að þar eru nú birt, hvað á maður að segja, minni mál, þó að öll mál skipti máli. Samráðsgáttin er mikið notuð og er nauðsynlegt að nýta hana.

En af því að ég var að minnast á þennan framkvæmdaþátt og að frumathugun liggur ekki fyrir og vegna þess að það eru skiptar skoðanir á því hvað þarf og hvað þarf ekki finnst mér lágmark að frumathugun liggi fyrir. Ég tala nú ekki um aðgerðaáætlun og rekstraráætlun.

Ég prentaði út lög um skipan opinberra framkvæmda og í 3. gr. þeirra laga kemur skýrt fram að frumathugun er könnun, ef ég fæ að vitna í það, með leyfi forseta, í 3. gr.:

„Frumathugun er könnun og samanburður þeirra kosta er til greina koma við lausn þeirra þarfa sem framkvæmdinni er ætlað að fullnægja.

Í greinargerð um frumathugun skulu vera áætlanir um kosti. Þessar áætlanir skulu vera tvíþættar, annars vegar áætlun um stofnkostnað, þ.m.t. kostnað við áætlunargerð, og hins vegar áætlun um árlegan rekstrarkostnað, þ.m.t. lánsfjárkostnað og tekjur, ef við á. Í greinargerðinni skal skýrt frá þeim rökum er liggja að vali kosts þess sem tekinn er, þar á meðal hagkvæmnireikningum sem notaðir eru í samanburði. Greinargerð um frumathugun skulu auk þess fylgja tillögur um staðsetningu og stærð, svo og frumuppdrættir að fyrirhugaðri framkvæmd, eftir því sem við á.“

Og aðeins hér áfram í 5. gr.

„Nú hefur verið ákveðið að veita fé til opinberrar framkvæmdar í fjárlögum, án þess að frumathugun hafi verið gerð, og skal þá frumathugun eigi að síður fara fram samkvæmt ákvæðum 3. og 4. gr. laga þessara.“

Og hér í 6. gr.:

„Þegar opinberri framkvæmd, sem ríkið og annar aðili standa að, er ráðstafað til áætlunargerðar skal gera samning milli væntanlegra eignaraðila og þeirra aðila er taka að sér áætlunargerð. Þátttaka ríkissjóðs í kostnaði vegna áætlunargerðar er háð skriflegu samþykki fjármálaráðuneytisins á þeim samningi.“

Þannig að það er alveg skýrt í lögum að þessi atriði þurfa að vera í lagi og eins og komið hefur fram er byrjað á algerlega öfugum enda.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að vera settur aftur á mælendaskrá vegna þess að ég var ekki hálfnaður með ræðuna mína.