150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Eins og allir vita þá stjórna Píratar samgöngumálum í borginni enda er það allt í ólestri og þar moka menn helst með öfugum skóflunum og reyna að hreinsa flórinn með skaftinu. En það er mjög týpískt, eða hefðbundið, verðum við ekki að segja, herra forseti, að nú þegar fram koma upplýsingar um frumvarpið, sem við erum að ræða hér og við Miðflokksmenn höfum rætt nokkuð, kemur það upp sem stundum hefur gerst þegar við tökum til máls um flókin mál og tökum okkur tíma til að ræða þau að þá koma fram nýjar upplýsingar, herra forseti. Í þetta skipti koma fram þær upplýsingar að væntanlega standist þetta frumvarp ekki lög um skipan opinberra framkvæmda. Því hefur verið lýst af fulltrúa Pírataflokksins að sérfræðingur sá sem kom til liðs við fjárlaganefnd í gærkvöldi, sem er hæstaréttarlögmaður og endurskoðandi að mennt með mikla reynslu, hafi verið óskýr í tali. Þetta er náttúrlega hefðbundinn dónaskapur, herra forseti.

Hvað gerist þegar saumað er að mönnum með þetta? Þessi flokkur hefur gefið sig út fyrir að vera hvítur eins og nýsnævi, gegnsær á móti hvers konar spillingu og vilja brjóta mál til mergjar, kanna þau til hlítar og vanda allan frágang nema, herra forseti, ekki akkúrat núna, ekki einmitt núna vegna þess að nú erum við að ræða frumvarp sem gæti verið á gráu svæði, ef við getum orðað það þannig, herra forseti, vegna þess að það fer í blóra við lög um opinberar framkvæmdir. Og hvað gerist þá, herra forseti? Þá bregður þingmaður Pírata sér í hlutverk góðrar persónu úr Tinnabókunum, nefnilega söngkonunnar ástkæru, Vælu Veinólínó, og kemur hér til að bera af sér sakir sem aldrei voru bornar upp á hann.

Þetta er alveg furðulegt, herra forseti, eða þó ekki. Þetta er bara dæmigert fyrir þennan flokk sem hamast í umbúðum, innihaldslaus, erindislaus, nema núna á Pírataflokkurinn á Alþingi allt í einu erindi. Hann á það erindi að verja sukkið í samgöngumálum í Reykjavík sem er jafnvel nú að ná hámarki ef þetta frumvarp verður samþykkt og ef Sjálfstæðisflokkurinn ákveður að fjármagna villtustu drauma Pírata og fylgismanna þeirra hér í Reykjavík um að setja upp samgöngubákn sem við vitum ekki hvort þarf, sem við vitum ekki hvernig virkar, sem við vitum ekki hvað kostar að reka vegna þess, herra forseti, að það er verið að byrja hér á öfugum enda. Það er verið að moka hér með skaftinu vegna þess að frumathugun hefur ekki farið fram sem er skylda samkvæmt lögum um opinberar framkvæmdir, kostnaðargreining ekki heldur. Það eru engin áætlanagerð. Hv. talsmaður Reykjavíkurborgar, sem heitir, ef ég man rétt, Hrafnkell Ásólfur Proppé, sagði: „Það er ekki tímabært að gera rekstraráætlanir.“ Hvenær á að gera það, herra forseti? Á að gera það bara þann dag sem fyrsti borgarlínustrætóinn, eða hvað þetta nú er, fer í gang? Á þá að vinna áætlanir um það hvað kostar að reka batteríið?

Herra forseti. Þetta er allt öfugsnúið. Þetta ilmar af spillingu. Þetta er ógagnsætt, þetta getur verið andstætt lögum. Þetta er illa og hroðvirknislega undirbúið og þetta er allt í boði Pírataflokksins. Yfir þetta vilja Píratar hylma. Yfir þetta vilja þeir leggja blessun sína. Yfir þessi vinnubrögð vilja þeir leggja blessun sína. Þetta vilja þeir framkvæma. Þetta vilja þeir gera þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir um endanlegan kostnað og þrátt fyrir að hætta sé á að þetta fari í blóra við önnur lög. Pírötum er ekkert heilagt, herra forseti.

Ég er ekki alveg búinn að klára þetta (Forseti hringir.) atriði þannig að ég bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.