150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Já, þingmaðurinn er kominn í leitirnar. Það er kannski erfitt að týna svona grip eins og þeim sem hér stendur, en allt getur gerst.

Hæstv. forseti. Ég var staddur þar í síðustu ræðu þar sem ég var að tala um lög um skipan opinberra framkvæmda. Það kemur skýrt fram, að mínu áliti og okkar í Miðflokknum, að samkvæmt þeim hefur ekki verið staðið rétt að þessum undirbúningi þar sem okkar niðurstaða er sú að það er byrjað á öfugum enda. Það liggur ekki fyrir frumathugun, rekstraráætlun eða aðgerðaáætlun.

Ég ætla að koma aðeins inn á 3. gr. í frumvarpinu sem við erum að fjalla um hér, frumvarp um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir í a-lið 3. gr.: „Að halda utan um fjármögnun á uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.“ Það er sem sagt hlutverk félagsins.

B-liður: „Að fara með heildstæða áætlanagerð og áhættustýringu.“

C-liður: „Að hafa yfirumsjón með samræmingu verkefna og meta forgangsröðun.

D-liður: „Að fylgja því eftir að sveitarfélögin vinni að nauðsynlegum breytingum á skipulagsáætlunum.“

Þarna er sem sagt eins konar boðvald inn í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga að mínu mati, þótt ég sé ekki lögfræðingur en það hljómar þannig. Í e-lið segir:

„Að innheimta flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu, verði ákveðið með lögum að leggja slík gjöld á, og byggja upp innviði slíkrar innheimtu.“

F-liður: „Að annast þróun á landi sem lagt verður til félagsins með það að markmiði að ná fram hámörkun á virði þess.“

Þannig að mikið er valdið og stórt er málið.

Ég var að ræða hér áðan um lög um opinberar framkvæmdir og hér kom hv. þm. Björn Leví Gunnarsson í andsvör við hv. þm. Birgi Þórarinsson og talaði um að það hefði ekkert komið fram á þessum fundi í gær sem væri athugunarvert og þetta væri allt í þessu fína og annað þar fram eftir götunum. Mér finnst það vera athyglisvert því að sjálfur hefur hv. þingmaður mikið talað um að það þurfi að fara í framkvæmd eftir lögum um opinber fjármál. Ég lái honum það ekki því að það eru lög sem voru sett hér 2015 og eru alltaf einhvern veginn betur að þróast inn í vinnu Alþingis og menn eru að samhæfa sig í þeim og er ágætt að menn séu á tánum yfir því að það sé farið eftir þeim lögum. En úr því að menn eins og hv. þingmaður eru áfram í því, þá finnst mér það skjóta skökku við, þegar komin er athugasemd um að aðgerðaáætlun, frumathugun og rekstraráætlun sé ekki eins og á að vera, að þá sé það allt í lagi. Það segir mér að Píratar vilja bara að þetta fari í gegn hvernig sem á málunum er haldið. Enda eru Píratar í meiri hluta í borginni og tala fyrir þessu og hafa mælt fyrir þessu máli og vilja borgarlínu. Mér finnst að það þurfi að vanda vinnubrögð eins og Píratar tala um og þeir tala líka um að við eigum ekki að vera með neitt fúsk og þar fram eftir götunum. En þetta atriði í sambandi við borgarlínu er algjört fúsk og þarf að laga og vinna betur og síðar.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.