150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[19:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil ítreka ósk mína til forseta þingsins um að beina því til hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að sýna þinginu þá virðingu að koma hérna og ræða það frumvarp sem hún lagði fram um Orkusjóð. Orkusjóð, sem taka á undan Orkustofnun og gera sjálfstæðan. Orkusjóð, sem stundum fer með kvartmilljarð króna af almannafé. Orkusjóð, sem hún ætlar að skipa þrjá aðila í fyllilega sjálf. Orkusjóð, sem ekki er með neitt fagráð, eins og sett var inn hjá Matvælasjóði til að passa upp á að fagleg sjónarmið og minni freistnivandi réði við úthlutun almannafjár, sem þyrfti líka að gera hjá Orkusjóði vegna þess mikilvæga hlutverks sem Orkusjóður á að sinna. Orkusjóð, þar sem ekki er hægt að sjá annað af meðferð málsins en að ekki eigi að koma í veg fyrir freistnivandann og hafa fagleg sjónarmið að leiðarljósi við úthlutun þessa fjármagns. Það er lágmark að ráðherra komi og ræði það frumvarp sem hún hefur lagt fram, sem atvinnuveganefnd vill ekki breyta í samræmi við það sem gert var í tilfelli Matvælasjóðs til að tryggja að fagleg sjónarmið séu frekar höfð að leiðarljósi og að minni freistnivandi verði við úthlutun á fjármagni. (Forseti hringir.) Það er lágmark að hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Forseti hringir.) komi hingað og ræði sitt eigið frumvarp, (Forseti hringir.) hvers vegna ekki er hægt að breyta því í þinginu á þessum faglegu forsendum.

(Forseti (HHG): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)