150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:43]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er góð spurning. 25 milljónir til úthlutunar í ýmis verkefni gera aldrei það gagn sem við þurfum. Ef maður skoðar þau verkefni sem Orkusjóður fjármagnaði milli 2016 og 2018, varmadæluverkefnin sérstaklega, eru það varmadælur fyrir einstakar byggingar. Verkefnið í Vestmannaeyjum er töluvert stærra að umfangi og þar erum við að tala um eitt stórt varmadælukerfi, ég man ekki hvort dælurnar eru þrjár eða fjórar sem slíkar í einni byggingu. En það er nóg til að kynda alla vega stóran hluta bæjarfélagsins. Það er ljóst að 25 milljónir fjármagna aldrei verkefni af þeirri stærðargráðu.

Það er kannski líka ágætt að setja þetta í samhengi við ummæli hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í eldhúsdagsumræðunum um daginn þar sem hún talaði um að við hefðum ekki efni á því sem samfélag að reka öll þessi stóru kerfi. Ég man nú ekki alveg orðalagið en ég hugsa strax um hitaveiturnar í samfélaginu í því samhengi. Við byggðum upp hitaveitukerfi á sínum tíma vegna þess að samfélagið þurfti þess, vegna þess að við vissum að það yrði ódýrara að byggja upp gott hitaveitukerfi en að halda áfram að kynda með kolum eða mó eða hvað það var. Þetta er betri leið. Ef við erum með varmadælur sem víðast mun það kosta sinn pening að innleiða það. En það mun spara okkur raforkukostnað, kyndingarkostnað, ýmiss konar kostnað. Það má segja að þetta sé samfélagslega skilvirk aðgerð. En við getum ekki framkvæmt hana nema það sé til nægilegt fjármagn til að geta byggt upp tæknina, (Forseti hringir.) sem við vitum að er til, vitum að virkar og þarf bara víðari dreifingu.