150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:50]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þótt ég hafi kannski í ræðu minni farið svolítið út í eitt tiltekið dæmi þá snýst þetta á endanum bara um það hvernig skipað er í stjórnina og hvernig við erum að byggja sjóðinn upp. Það er hárrétt og ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga mig aftur inn að kjarna efnisins. Það sem ég hef áhyggjur af er einmitt að með því að ráðherra hafi í raun algjört geðþóttavald um skipan aðila í stjórn þá verði til ákveðinn hvati, sem við vitum alveg að er til í því pólitíska samhengi sem við erum í, til að velja kannski frekar einhverja sem eru heppilegir út frá pólitískum forsendum en út frá vísindalegum forsendum. Ég er ekki að segja að það muni gerast. Það gæti alveg verið að ráðherra skipi færustu vísindamenn sem mögulegt er. Að vísu þarf fleira en bara vísindamenn til að reka svona góðan sjóð. Það þarf líka fólk sem kann að reka sjóði, fólk sem kann fjármálahliðina, fólk sem kann stjórnsýsluhliðina. En ef ekki er gerður nógu góður rammi utan um það á hvaða forsendum skipað er í svona hlutverk þá er hætt við að fagmennskan fari út um gluggann og henni verði fórnað á altari pólitíkurinnar. Ég hef bara horft á það gerast of oft, á þeim örfáu árum sem ég hef verið á þingi, að pólitíkin trompar fagmennskuna. Ég tek því undir það að æskilegt væri að einhvers konar faglega skipun væri í þessu. Við þurfum enn fremur að íhuga það í víðara samhengi hvort ekki ætti að samræma skipunaraðferðir þvert yfir alla sjóði og allar stjórnir af þessu tagi, til þess einmitt að tryggja faglega aðkomu.