150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:52]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrt og gott svar. Ég nefndi, í umræðu um málið fyrr í kvöld, að ég er þeirrar skoðunar að almennt séð fari vel á því í lagasetningu að hafa einfaldlega sem mest uppi á borðum, að það sé algjör óþarfi í lagasetningu, eins og við vorum að gantast með hér fyrr í kvöld, að vera eins og Morgunblaðið þar sem það skiptir nánast jafn miklu máli það sem ekki er sagt. Þá komum við kannski aftur að þessu: Þarf að setja þetta inn í ákvæðið eða ekki? Dugar ekki að hafa þetta í reglugerð? Eða ætlum við að fara þá leið að ráðherra sé þetta algerlega í sjálfsvald sett? Og svo eru það önnur sjónarmið sem ég játa að ég hef bara ekki þekkingu á í þessu tiltekna máli. Hvað ræður mestu? Er það sérfræðiþekking á sviðinu? Er það reksturinn? Er það stjórnsýslan? Þetta eru allt sjónarmið sem hv. þingmaður nefndi. En það situr dálítið í mér að mér finnst þessi 3. gr. vera strípuð.