150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:13]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætt andsvar. Eins og ég minntist á held ég að við getum gert talsvert meira og betur. Ég er samt alls ekki þar með að segja að ekkert hafi verið gert. Margt höfum við gert á þessu sviði. En hv. þingmaður minntist á einkaleyfi og ég hef það fyrir satt að í gegnum árin og áratugina hafi orðið til margs konar lausnir, aðferðir til að leysa úr ýmiss konar vanda, hvort sem það er á sviði vatnsaflsvirkjana eða, og kannski mest, á sviði nýtingar jarðvarma. Þar hafi orðið til margar snjallar lausnir til að leysa úr vandamálum og menn hafi sýnt ótrúlega útsjónarsemi og hugvit við að finna út úr því, þurft að smíða og hanna alls konar græjur út og suður og allt það. Og allt hafi þetta á endanum virkað. En menn hafi kannski ekki leitt hugann að því að þarna væru þeir búnir að leysa vandamál með þeim hætti að hægt væri að gera úr því vöru sem væri hægt að selja, þeir hafi ekki gætt þess að verja hana heldur talað af stolti ef gestir komu, sýnt og sagt: Já, heyrðu. Svona erum við búnir að leysa þetta. Við gerum bara svona og svona. Svo fara útlendingarnir heim og gera líka svona og svona.