150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að velta aðeins upp með hv. þingmanni áhugaverðum mun á frumvarpinu um Orkusjóð eins og það er, og Orkusjóði eins og hann er núna sem ráðgjafarnefnd. Frumvarpið er að miklu leyti svipað verklagsreglum ráðgjafarnefndarinnar, ef maður ber þetta tvennt saman, en hv. þingmaður er sérfræðingur í einu atriði sem þar er.

Í 4. gr. verklagsreglnanna er fjallað um að Orkusjóður sé samkeppnissjóður, að styrkumsóknir séu metnar út frá hlutverki og tilgangi sjóðsins og þeim áhersluatriðum sem fram koma í auglýsingum um styrki í hvert sinn. En í frumvarpinu er hvergi talað um að Orkusjóður sé nauðsynlega samkeppnissjóður. Það getur vel verið að það sé sagt í reglugerðarheimildunum sem eru hérna, en það er ekki augljóst hvaða áhrif það hefur á eðli sjóðsins af hendi ráðherra miðað við hvernig sjóðurinn starfar í dag. Miðað við að sjóðurinn starfar nú sem samkeppnissjóður, eins og margir aðrir sjóðir á vegum hins opinbera, þá er dálítið merkilegt, til viðbótar við það hvernig stjórnin er skipuð, að ekki sé tiltekið að um samkeppnissjóð sé að ræða, ef maður ber það t.d. saman við Tækniþróunarsjóð, Nýsköpunarsjóð o.s.frv. Mér þætti áhugavert að fá álit hv. þingmanns, sem leiddi einmitt vinnu fjárlaganefndar varðandi nýja Kríusjóðinn, hvað varðar reglurnar og ýmislegt fleira.