150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:25]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til er hugtak í kvikmynda-, sjónvarpsþátta- og bókmenntafræðum, og ég biðst velvirðingar á að grípa til ensku, sem kallast „cliffhanger“. Það mætti kannski þýða sem klettasnasarhangi eða eitthvað í þá veru, sá sem hangir á klettasnösinni. Við þekkjum þetta, þætti lýkur á einhverju spennuþrungnu augnabliki og við erum skilin eftir í örvæni um það hvað gerist næst. Mér leið svolítið svona meðan ég var að hlusta á ræðu hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar. Hann lauk ræðu sinni á þessu sem kallað hefur verið „cliffhanger“ á ensku, hann lauk ræðu sinni eitthvað á þessa leið, með leyfi forseta: „Það sem ég hef alltaf undrað mig á er það …“ Svo kom aldrei það sem hv. þingmaður hefur alltaf undrað sig á og nú leikur mér forvitni á að vita það og ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hv. þingmann bara út í það hreint og beint og bíð í ofvæni eftir svari: Hvað er það sem hv. þingmaður hefur alltaf undrað sig á?