150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég fagna því að við finnum tíma í öllu þessu málafargani til að ræða virðingu Alþingis. Mig langar til að bæta á þann lista sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson bryddar upp á um hluti sem við getum gert til að bæta virðingu Alþingis. Og það er kannski að íhuga, ekki bara hvernig við komum klædd hingað í ræðustól heldur hvað við höfum til málanna leggja. Ég mælist til þess, ef við ætlum í alvöru að ræða virðingu Alþingis, að við veltum fyrir okkur hvort við vinnum henni gott gagn með álíka málþófi og Miðflokkurinn viðhafði hér fyrir ári um orkupakkann. Við getum haft mismunandi skoðanir á ýmsu og þar af leiðandi og þar með greinilega á því hvernig við gerum virðingu Alþingis hátt undir höfði. Ég get að vissu leyti tekið undir það að útlit okkar hér í ræðustól er hluti af því. En það kemur fleira til. Ég get ekki orða bundist eftir að hv. (Forseti hringir.) þingmaður Miðflokksins kom hér upp í pontu og (Forseti hringir.)taldi klæðaburð þingmanna helst til vansa virðingu Alþingis.