150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að játa að það fór aðeins um mig þegar þessi umræða hófst því að ég var skráð næst í ræðustól, stend hér í framsóknargrænum kjól og skammaðist mín aðeins. Ég ætlaði að segja að mér finnst þetta áhugaverð umræða, en mér finnst hún það ekki. [Hlátur í þingsal.] Bara alls ekki. Ég kem úr svo íhaldssömu starfsumhverfi að mér finnst ég vera frjálsleg hér þegar ég er ekki í skikkju. Mér finnst ég líka eiga eitthvað eftir í ræðunni þegar ég lýk máli mínu ekki á því að fara fram á refsingu. [Hlátur í þingsal.] En auðvitað verður fullorðið fólk að fá að ráða því hvernig það er klætt og auðvitað er svigrúm kvenna aðeins meira. Ég sé fyrir mér að karlmenn kæmust ekki upp með það að vera hér í framsóknargrænum kjól. En að því sögðu þá held ég að það megi alveg segja það um ásýnd að við erum alltaf að spegla virðingu okkar fyrir stofnuninni og það held ég að eigi við um klæðaburðinn líka. (JÞÓ: Sammála.)