150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:03]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli tilhlökkun sem ég kem hingað upp til að ræða þetta mál. Mig langaði að þessu sinni að fara aðeins yfir atriði sem lýtur að umsögn frá Ríkisendurskoðun í tengslum við þetta mál. Það er kannski áhugavert að ekki lengra frumvarp en þetta sé efni svona mikillar umræðu en umsögn Ríkisendurskoðunar lýtur að tveimur greinum frumvarpsins, 8. gr., sem hefur verið töluvert til umræðu hér í dag og í kvöld, og 6. gr.

Í 8. gr., sem fjallar um reglugerðarheimildina, kemur fram að stjórn Orkusjóðs geti sett nánari reglur og skilyrði um tilfærslu fjármuna milli einstakra verkefna ef nauðsyn krefur. Ríkisendurskoðandi segir að hér vakni sú spurning hvort stjórn Orkusjóðs eigi að geta flutt fjármuni á milli ára án aðkomu ráðherra.

Varðandi 6. gr. lýtur athugasemdin að tekjum Orkusjóðs, sem eru framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis á fjárlögum hverju sinni. Ástæða sé til að fá sjónarmið fjármála- og efnahagsráðuneytisins um það hvort þetta atriði geti valdið skörun í framtíðinni. Ég sé núna að er minnisblaðið sem fylgdi með umsögninni en er ekki umsögnin sjálf en tel nú samt að þetta sé í anda þess sem einnig er rakið í umsögninni.

Svo var annað atriði sem mér fannst áhugavert í tengslum við þetta frumvarp, það eru sjónarmið um áherslur íslenskra stjórnvalda í þessum nýja heimi orku- og umhverfismála og sömuleiðis skuldbindingar stjórnvalda, bæði með Parísarsamkomulaginu og svo samstarfssamningum við önnur Norðurlönd og fleira sem er í þá veru, að styðja við þróun orkutækni sem geti komið í stað notkunar jarðefnaeldsneytis. Um þetta er fjallað í umsögn frá Valorku. Þar er því sjónarmiði haldið fram og flaggað að þetta sé skylda okkar, ekki aðeins hérlendis heldur einnig á heimsvísu, sem sagt að hérlendis ættu í reynd að vera til staðar einhver þau stuðningsúrræði sem hefðu þann tilgang að styðja íslenska tækniþróun, sem mætti þá miðla til annarra landa sem umhverfisvænum tæknilausnum til orkuframleiðslu og þetta úrræði skorti algerlega hérlendis. Um það atriði er ekki fjallað í þessu stutta frumvarpi en ég verð að segja að mér fannst þetta sjónarmið vera allrar athygli vert.