150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi hér áðan umsögn ríkisendurskoðanda og því fór ég að glugga í breytingar á nefndarálitum með málinu. Í fyrra nefndarálitinu eru fjarlægð nokkur orð úr 6. gr., um vexti, og svo er þeim bætt aftur við síðar. Þá varð mér hugsað til samtals sem ég og hv. þingmaður áttum hér fyrr í dag um það hvernig þingið fer með umsagnir og tillögur frá umsagnaraðilum. Ég verð að viðurkenna að ég er að vona að hv. þingmaður geti frætt mig líka bara um efni þessara breytinga, vegna þess að ég er ekki alveg viss um að ég skilji þær. Ég er reyndar viss um að ég skilji þær ekki. Mér finnst svo algengt að á hinu háa Alþingi komi umsagnaraðilarnir, gestir, til okkar, sérfræðingar frá ríkisendurskoðanda eða héraðssaksóknara eða einhverjum slíkum ágætum embættum, og leiðbeini okkur um einhverjar breytingar sem samkvæmt þeirra sérfræðiáliti væru góðar. Það er mín tilfinning að nefndir geri lítið við þessar breytingar, séu seinar til að svara þeim. Í þessu tilfelli tekur nefndin til baka breytinguna sem hún gerði milli 1. og 2. umr. í nefndarstörfum milli 2. og 3. umr. Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn hálfringlaður yfir því nákvæmlega hvar það stendur með tilliti til athugasemda ríkisendurskoðanda, og mér er óljóst hvort hv. þingmaður getur varpað ljósi á það fyrir mig, ég get fyrirgefið það ef svo er ekki. En ég velti fyrir mér hvernig það líti út fyrir þingmanninum, hvernig farið er með tillögur þeirra sérfræðinga sem koma fyrir nefndir og leggja til breytingar á málum sem hér eru til umræðu.