150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður minntist á umsögn Valorku en þar er einmitt sagt að ekki sé bara ýmislegt ósagt heldur einnig eitthvað ósatt, samkvæmt þeirri ágætu umsögn. Í lok þeirrar umsagnar kemur fram, með leyfi forseta:

„Að lokum er rétt að leiðrétta það sem fullyrt er í greinargerð með frumvarpinu. Það er rangt að í þessu frumvarpi sé tekið tillit til þeirra tillagna sem Valorka sendi inn á samráðsgátt.“

Svo er þarna lýsing á fleiru sem Valorka ehf. telur rangt í greinargerðinni og þingið er síðan minnt á að mikilvægt sé að greinargerðirnar séu réttar eins og lagatextinn sjálfur, sem vitaskuld ætti að vera algerlega sjálfsagt þótt hugsanlega séu afleiðingarnar af því að gera mistök í greinargerð alla vega ekki sjálfkrafa jafnalvarlegar og við það að gera mistök í frumvarps- eða lagatexta.

En þetta vekur líka athygli mína á því hversu oft við fáum umsagnir og hunsum þær eða gerum lítið eða svörum með einhverri sjálfsréttlætingu fyrir það að taka ekki utan um punktinn. Við svörum oft mjög illa, að mínu mati. Við fáum oft, myndi ég segja, þau skilaboð frá umsagnaraðilum að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda en samt eru málin sett fram og presenteruð hér eins og það hafi verið rosalega mikið samráð og rosalega mikið talað við hina og þessa. Ég nefni sem dæmi nýlegt mál í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem samráðsferli dómsmálaráðuneytisins var að mínu mati algerlega óviðunandi. En samt sem áður er alltaf reynt að láta hlutina líta út eins og samráð hafi verið ægilega mikið. Eins og við þekkjum úr okkar nefnd getur samráð einfaldlega falið það í sér að setja eitthvað á samráðsgátt. Það er ekki samráð, það er bara að setja eitthvað á vefsíðu. En ég hef svolitlar áhyggjur af þessu og sér í lagi vegna þess að mér finnst hætta á því að þingmenn (Forseti hringir.) verði samdauna þessu verklagi með tímanum. Ég velti fyrir mér hver sýn hv. þingmanns er á þetta.