150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt áhugavert að sjá að hlutverk sjóðsins er að breytast rosalega mikið frá núverandi fyrirkomulagi. Það var hlutverk sjóðsins að stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, en viðbótin er sem sagt að huga að endurnýjanlegum orkugjöfum. Allar þessar stefnur, orkuöryggið o.s.frv., eru líka hluti af nýju hlutverki og væntanlega miklu viðameira hlutverki. Það að sjá að það hefur engin áhrif á fjárhag ríkisins að breyta frumvarpinu þýðir væntanlega að umfangið er heldur ekkert að aukast þrátt fyrir miklu umfangsmeira hlutverk. Það er í sjálfu sér mjög áhugavert, þá er hægt að sinna miklu umfangsmeira hlutverki fyrir, að því er virðist, nákvæmlega sama fjármagn.