150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:58]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er náttúrlega allt hið athyglisverðasta mál og mjög spennandi. Mig langar til að velta upp 8. gr. þar sem ég veit að hv. þingmaður er ansi klókur í því að velta vöngum yfir gildandi rétti og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Þar er verið að tala um að Orkusjóður veiti fé og heimildir til að fella niður endurgreiðsluskyldu lántaka. Stjórn Orkusjóðs getur sett nánari reglur. Ég velti fyrir mér hvort þetta, a.m.k. miðað við hvernig skipað er í stjórnina, sé ekki í raun til þess fallið að draga úr trúverðugleika á að það sé hafið yfir allan vafa að hér gæti pólitíkin og kannski ákveðið hagsmunapot litið dagsins ljós frekar en ella, miðað við það hvernig skipað er í stjórnina, eins og ég sagði. Ég er að velta því fyrir mér hvort eitthvað þyrfti að gera betur í sambandi við þessa grein. En hvað um það, hugsanlega og mögulega gætum við séð bjartari framtíð með því að styðja enn frekar við þennan sjóð. Það er þetta sem mig langar að velta upp við hv. þingmann, 8. gr. og hvernig honum hugnast hún.