150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[11:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessa spurningu. Hún snýst um veggjöld. Ósanngjörn skattheimta. Sennilega var það þá ósanngjörn skattheimta þegar við innheimtum 50 kr. fyrir að aka Keflavíkurveginn gamla, sem var lagaður og steyptur upp og allir fögnuðu. Og náttúrlega það að stytta Hvalfjarðarleiðina um 60 km, líka ósanngjörn skattheimta. Ég held, hv. þingmaður, að menn hugsi þetta bara einfaldlega rangt. Öxi er ágætisdæmi. Hún styttir leið fyrir þá sem þurfa að fara hana — auðvitað geta ferðamenn og aðrir farið hana — um 70 km og meðalkostnaðurinn á bíl er 100 kr. á kílómetrann. Styttingin við að fara Öxi og borga þar kannski 500 eða 1.000 kr. sparar vegfarandanum því stóra upphæð. Það kostar 7.000 kr. að keyra hina leiðina. Ég skil ekki hvernig menn fá það út að þetta sé ósanngjörn skattheimta, fyrir utan öryggi og annað. Þetta er 4 milljarða kr. framkvæmd (Forseti hringir.) og henni er hægt að flýta með þessu móti.