150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[11:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Áhyggjur mínar eru einfaldlega þær að í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er uppgjöf fyrir því að samgöngukerfið eigi að byggja upp á sameiginlegum grunni, úr sameiginlegum sjóðum.

En mig langar að spyrja út í samspilið við ríkisfjármál. Í nefndarálitinu segir: „Þá var því haldið fram að aðkoma einkafjárfesta að samgönguframkvæmdum væri afleiðing ósveigjanlegrar lagaumgjörðar um opinber fjármál sem kæmi í veg fyrir nauðsynlegar framkvæmdir ríkisins.“ Ég næ ekki að lesa út úr því sem fylgir hvort nefndin taki undir þetta eða ekki. Mér sýnist svona fljótt á litið að nefndin sé sammála þessu, að það sé umgjörð opinberra fjármála sem stýri þessu. Ég myndi vilja fá það staðfest frá þingmanninum og þá kannski sérstaklega í ljósi þess að þessi kafli endar á því að meiri hlutinn (Forseti hringir.) leggur áherslu á að við ákvörðun um útfærslu verði litið til samræmis við opinber fjármál. Eru þau farin að ráða frekar en metnaður okkar (Forseti hringir.) gagnvart almennum ríkisútgjöldum?