150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

framhald þingstarfa.

[13:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Kannski fyrst og fremst til skýringar varðandi þau atriði sem hv. þm. Inga Sæland nefnir og eins hv. þm. Halldóra Mogensen hér fyrr í umræðunni. Það hefur legið fyrir í þessum samningaviðræðum að vilji væri til að taka á dagskrá þingsins og taka til umræðu þingmannamál frá hverjum stjórnarandstöðuflokki. Það hefur hins vegar alltaf legið fyrir á vettvangi þingflokksformanna, alveg frá upphafi, á hverjum einasta fundi, að þó að mál væru tekin á dagskrá áskildi meiri hluti þingsins sér rétt til þess annaðhvort að samþykkja mál, fella mál eða vísa því til ríkisstjórnar. Krafan um það að þessi þriðji þáttur, að vísa málinu til ríkisstjórnar, sé ekki tækur kostur, eins og bæði Píratar og Flokkur fólksins hafa gert kröfu um núna, er þá í miklu ósamræmi við allt sem áður hefur verið talað um (Forseti hringir.) í sambandi við afgreiðslu þingmannamála.