150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[14:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Þetta frumvarp um samgönguverkefni um vegaframkvæmdir snýst í rauninni, að mér sýnist, um að ekki á að fylgja samgönguáætlun. Það á ekki að fylgja þeim ramma sem er settur á faglegum forsendum um samgöngur í landinu þar sem verður að líta til ákveðinna sjónarmiða um að meginmarkmiðin séu að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar, auk þess að stuðla að jákvæðri byggðaþróun. Menn vilja ekki fara þá leiðina. Hæstv. samgönguráðherra er greinilega ekki það sterkur að hann hafi getað tryggt fjármagn í þær framkvæmdir sem þarf að fara í, jafnvel þótt innviðauppbygging hafi verið eitt af stóru kosningaloforðunum fyrir síðustu kosningar hjá öllum flokkum og hún hafi ratað inn í stjórnarsáttmálann, sérstaklega innviðauppbygging varðandi vegaframkvæmdir. Samt sem áður tekst hæstv. samgönguráðherra ekki að fá meiri peninga frá hæstv. fjármálaráðherra til að tryggja samgöngur í sínu sveitarfélagi.

Hvað er gert? Jú, af því að þrjár af þessum sex framkvæmdum í frumvarpinu eru í kjördæmi hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra — jafnvel þótt sumar af þessum framkvæmdum hafi verið inni í samgönguáætluninni, sumar eru neðar — er þeim kippt út úr samgönguáætlun. Svo er samgönguáætlun samþykkt. Hvað gerist þá? Þá er samgönguáætlun læst í þrjú ár. Þessi verkefni verða að fara þá leið sem verið er að leggja til í þessu frumvarpi. Hvað kostar það? Jú, það er búið að taka þau út úr faglegum ramma, það er búið að festa það að þessar framkvæmdir verði að vera í samstarfi við einkaaðila eða að einkaaðilar sjái alfarið um þær.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir að samkvæmt þeirra útreikningum muni það kosta 33% meira fyrir þá sem þurfa að nota þessa vegi. Ókei, ef menn ætla að fara þessa leið þá er gott að spyrja sig: Er þetta eitthvað sem landsmenn vilja? Er þetta eitthvað sem heimamenn vilja? Menn bera þá fyrir sig: Jú, heimamenn vilja þetta, sveitarstjórnirnar á þessum svæðum hafa samþykkt það. Hvað með fólkið í sveitarfélögunum? Vill það greiða 33% hærra verð af því að samgönguráðherra náði ekki að tryggja peninga í þessar framkvæmdir jafnvel þótt það sé í stjórnarsáttmálanum að setja vegaframkvæmdir og innviðauppbyggingu í forgang? Vill fólkið í sveitarfélaginu það? Við vitum það ekki, við vitum að sveitarstjórnir hafa samþykkt það. Ég er ítrekað búin að spyrja hvort gerð hafi verið skoðanakönnun meðal fólksins í sveitarfélögunum. Fyrir mér væri það fyrsta krafa að fá að sjá hvort fólkið sem þarf að nota þetta og borga þetta aukaverð sé tilbúið að sætta sig við þetta.

Númer tvö er að spyrja: Þeir sem þurfa að keyra þarna fram hjá, sem jafnvel búa ekki í sveitarfélaginu en verða náttúrlega líka að keyra þarna, eru þeir sáttir við þetta? Er fólk sátt við að borga allt að því 33% hærra verð til þess að fá þessa vegi? Sumir þeirra hefðu hvort sem er verið inni í samgönguáætlun. Það fékk ég frá stjórnarþingmanni þegar ég talaði um þetta mál. Ég sagði líka: Já, en eitt af áhyggjuefnunum mínum er að farið sé með þessum hætti í þessar framkvæmdir og látið borga fyrir þær. Þá er sagt: Já, það eru nú aðrar leiðir, það er hægt að fara aðrar leiðir. Já, en þessar aðrar leiðir gætu samt sem áður orðið svolítið slappar.

Ætla menn á líftíma þessara framkvæmda að halda við fjallabaksleiðinni, afleggjaraleiðinni? Ég spurði: Hver verður uppbyggingin á henni? Mun hún ekki drabbast niður? Sá þingmaður sem varð til svara sagði: Jú, það gæti vel verið að það gerðist. Auðvitað getur það gerst. Þegar hætt er að forgangsraða einhverju ratar það auðvitað langneðst þannig að menn geta ekki einu sinni fengið peninga frá ríkinu í að tryggja þær framkvæmdir. Ætla menn að reyna að sannfæra þá sem þurfa að nota þessa vegi um að það sé einhver önnur leið fram hjá sem verði haldið við? Nei, það er ekki sannfærandi og það er ekki satt. Þetta mun rata neðarlega í forgangsröðina, auðvitað og réttilega. Menn eru ekkert að fara að setja pening í það. En það er það sem þetta kostar. Ein af réttlætingunum sem gefnar eru, um að það séu aðrar leiðir, kostar það að þær munu drabbast niður. Þetta vitum við.

Það er líka talað um að þetta eigi vera hagkvæmt. Nei, það er ekki hagkvæmt að láta einkaaðila að taka þátt í þessu. Þeir eru með dýrt fjármagn sem kostar mikið. Já, það er hagkvæmt fyrir einkaaðilana. Þeir geta sett peningana sína í vinnu og rukkað heilan helling. Það kemur ekki einu sinni fram í frumvarpinu hvað þeir mega rukka mikið. Þeir geta rukkað heilan helling fyrir að nota vegina sem þeir byggðu. Hvað myndi þá ríkið rukka fyrir það? Ríkið getur tekið lán á 1% vöxtum í dag. Enginn keppir við það. Það er langhagkvæmast að ríkið fari í þessar framkvæmdir. Það er samkvæmt kosningaloforðum og það er samkvæmt stjórnarsáttmálanum að setja í forgang innviðauppbyggingu í vegaframkvæmdum. Ef þeir þingmenn sem styðja þetta mál og framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson, og sérstaklega sveitarstjórnarráðherra myndu standa betur í lappirnar í því að tryggja fjármagn til þeirra framkvæmda sem þarf að fara í þyrfti ekki að fara þessa leið.

Þetta er í rauninni það sem það kostar að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum með fjármálaráðherra sem heldur um buddustrenginn. Það kostar það að fjármálaráðherra er ekki að fara að hleypa ráðherrum sínum neitt. Heilbrigðisráðherra vill passa upp á að gerðir séu góðir samningar við hjúkrunarfræðinga. Fjármálaráðherra segir: Nei, ég sem ekki um að hækka launaliðinn. Hann er mjög harður samningamaður og það ætti ekki að koma neinum á óvart. Aftur lætur hann setja laun hjúkrunarfræðinga í gerðardóm. Það er það sem hann er að gera. Þetta hefði Vinstri grænum átti að vera ljóst þegar þeir fóru í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þetta hefði Framsóknarflokknum líka átt að vera ljóst. Þeir fá sveitarstjórnarráðuneytið en þeir fá ekki tækifæri til að fá nógu mikið fjármagn í samgöngu- og sveitarstjórnarmál til að tryggja samgöngumálin án þess að gera eins og Sjálfstæðismenn vilja, þ.e. að fara í einkaframkvæmdir. Það er þeirra blauti draumur. Þetta er það sem bæði Framsóknarmenn og Vinstri grænir eru búnir að binda sig við. Þeir eru búnir að binda sig við manninn með budduna sem getur sagt: Þið fáið ekki skammtað, þið fáið ekki að fara þangað sem þið viljið nema á mínum forsendum. Í þessum tilfellum er það einkavæðing á samgöngukerfinu og það að landsmenn þurfa að borga miklu meira fyrir þjónustuna. Sjálfstæðismenn geta síðan bara sagt: Þetta eru ekki skattahækkanir. Sjáið bara hvað við erum góð, við pössum upp á að það séu engar skattahækkanir. Auðvitað eru þetta í rauninni samt sem áður skattahækkanir. En þeir geta sagt þetta. Á meðan þurfa Vinstri grænir að beygja sig undir það að samþykkja miklu dýrari vegaframkvæmdir og samgönguframkvæmdir með því að einkavæða. Þetta er staðan.

Tökum þetta saman. Það hefði verið hægt að fara þá leiðina að setja meira fé í það að vegaframkvæmdir væru bara inni í samgönguáætlun. Sumir voru þegar þar. Það var eitt sem ég fékk líka að vita. Þegar þessar sex framkvæmdir eru teknar út úr samgönguáætlun, sumar þeirra hefðu náð að detta inn í þann fjárhagslega ramma sem er til staðar nú þegar en sumar ekki, hoppa aðrar upp. Hverjar eru þær sem hoppa upp? Ég hef ekki fengið svar við því en það væri áhugavert að sjá. Ef verið er að taka út framkvæmdir sem hvort eð er hefði verið farið í er ekki verið að gera það vegna þess að það er hagkvæmt. Þá er verið að gera það vegna þess að einhver önnur framkvæmd ýtist upp. Hvaða framkvæmdir eru það? Það væri mjög áhugavert að vita.

Þetta er það sem málið snýst um. Þó að sérstaklega sé talað um innviðauppbyggingu í vegaframkvæmdum í ríkisstjórnarsáttmála skammtar hæstv. fjármálaráðherra það naumt og hæstv. sveitarstjórnar- og samgöngumálaráðherra er það veikur að hann nær ekki að tryggja þetta nema að fara þá leið sem Sjálfstæðismenn vilja, sem er að einkavæða þessa vegi. Vinstri grænir láta að sjálfsögðu teyma sig með í þá för að einkavæða þetta, að láta fólk borga miklu meira, flatan skatt á alla þá sem þurfa að nota vegina.

Hæstv. framsögumanni málsins, Njáll Trausti Friðbertsson, verður mjög tíðrætt um Hvalfjarðargöngin. Já, nákvæmlega, Hvalfjarðargöngin. Fólk er ánægt í dag vegna þess að við eigum Hvalfjarðargöng en yfir það heila kostuðu þau, ég var að fá tölur um það, heilan milljarð. 50 milljónir á ári bara fyrir að reka gjaldtökuhliðina á því máli. Yfir það heila var þetta dýrara heldur en ef ríkið hefði gert það. Þetta eru tölur sem ég var að fá upplýsingar um. Hver er hissa á því að ríkið geti fengið miklu ódýrara fjármagn en sú arðkrafa sem einkaaðilar eru með, jafnvel í Hvalfjarðarmódelinu sem margir eru ánægðir með í baksýnisspeglinum?

Hvað með Vaðlaheiðargöng? Vaðlaheiðargöng eru einmitt dæmi um kjördæmapot þar sem framkvæmd var tekin út úr samgönguáætlun og sagt: Þetta er einkaframkvæmd, einkaaðilar sjá bara um þetta. En ríkið þurfti að borga 8 milljarða inn í það fíaskó. Ég sat á fjárlaganefndarfundi þegar þeir komu frá ríkinu að ræða ríkisábyrgðir og eftirlit með þessum málum. Þeir voru alveg skorinorðir. Ríkið hafði þurft að borga svo mikið af almannafé inn í þessa framkvæmd að hún var orðin ríkisframkvæmd samkvæmt öllum skilgreiningum. En þetta var farið af stað. Vaðlaheiðarmódelið er það sem fólk hræðist, eðlilega. Fólk hræðist að í nákvæmlega einhverju svona kjördæmapoti sé verið að taka framkvæmdir út úr samgönguáætlun og fara með þær í einkaframkvæmd eða einka-/ríkisframkvæmd. Og hvað gerist þegar og ef þessar framkvæmdir lenda í vandræðum? Það er ekkert öruggt með það, annað en að stjórnmálamenn gera nákvæmlega það sama og með Vaðlaheiðargöng. Þeir segja: Nú verður ríkið að hlaupa undir bagga. Og skattgreiðendur enda á því að borga, eins og með Vaðlaheiðargöngin, helminginn af framkvæmdinni en eiga ekkert af henni. Þeir borga helminginn af framkvæmdinni og svo 100% af gjaldtökunni.

Þetta er það sem gerist þegar menn taka samgönguframkvæmdir út fyrir þann faglega ramma sem er settur í samgönguáætlun í svona kjördæmapoti og troða þeim inn á einhverjum öðrum forsendum. Þetta er það sem hefur gerst í fortíðinni. Sporin hræða með það. Ég sá að framsögumaður sat hér í salnum og hlustaði en starði bara út í loftið. Hann er núna genginn úr sal því að hann þolir ekki að sitja undir þessu. Það er í kjördæmi hans sem þrjár af þessum sex framkvæmdum eiga að fara af stað. Hann hefur ekki hugmynd um hvort þeir sem þurfa að nota þessa vegi séu ánægðir. Sveitarstjórnirnar eru ánægðar og hverjir sitja í þeim? Sveitarstjórnir hér á suðvesturhorninu sem eru á forræði Sjálfstæðisflokksins vilja og krefjast þess að fá gjaldheimtu á þær framkvæmdir sem þarf að fara í af því að Sjálfstæðismenn á Alþingi vilja ekki borga með almannafé. Þeir vilja takmarka sem mest þeir mega innviðauppbyggingu á vegaframkvæmdum sem greidd er með almannafé vegna þess að annars þarf að greiða með sköttum og það er bara stefna flokksins að hækka ekki skatta og lækka þá eins mikið og þeir mögulega komast upp með. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn ræður í þessu máli og hann er að teyma bæði Framsóknarflokkinn og Vinstri græna á asnaeyrunum og láta Vinstri græna skrifa undir það, vera með framsögu og verkstýra þessu máli hér í gegnum þingið, þvert á sjónarmið þeirra og þess sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum sem Vinstri grænir samþykktu um að setja ætti í forgang innviðauppbyggingu á vegaframkvæmdum og m.a. nota eignatekjur ríkisins til þess.

Þannig að þetta er hið versta mál og þetta á vonandi í næstu kosningum eftir að kosta þá þingmenn í Suðurkjördæmi sem samþykkja þetta, Ara Trausta Guðmundsson, framsögumann málsins, Vilhjálm Árnason, sem situr líka í samgöngunefnd og hefur samþykkt þetta mál fyrir þá, og svo auðvitað samgöngumálaráðherra sjálfan, Sigurð Inga Jóhannsson.