150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður man kannski ekki eftir því hvernig ég vék orðum mínum að ýmsum skýrslum og kostnaðargreiningum varðandi borgarlínu í þeirri umræðu. Það var að vísu hunsað þá en allt gott og blessað með það.

Þessi 20–30% kostnaðarauki er vegna þess að í samvinnuverkefnum á einkaaðilinn almennt séð að standast áhættu. Það eru þrjár mismunandi áhættur af því sem verið er að gera og hann þarf m.a. að standast áhættuna af fjármögnun verkefnis sem hefur allt annan vaxtakostnað en hið opinbera fengi. Þetta er hluti af hinum aukna kostnaði sem einkaaðili ber og sá kostnaður endar að sjálfsögðu á notendum. Það eru fleiri atriði sem gera það að verkum að kostnaður við framkvæmdina verður meiri þegar einkaaðili ber ábyrgð á atriðum eins og fjármögnun. Arðsemiskrafan er líka öðruvísi hjá einkaaðila sem einblínir bara á gjaldtökuna, arðurinn kemur einungis í gegnum gjaldtökuna á meðan arðurinn af opinberri framkvæmd kemur í gegnum ákveðinn samfélagslegan ábata í nágrenninu. Það væri hægt að telja til ábata fyrir uppgreiðslu verkefnisins sem slíks.

Og svo er bara mjög áhugavert ef fjármálareglur laga um opinber fjármál koma í veg fyrir hagkvæmar framkvæmdir út af skuldareglunni. Fjármálaráð hefur sérstaklega bent okkur á það, gerði það í einni af fyrstu umsögnum sínum, að aðhaldsstig hins opinbera geti orðið betra þó að ríkissjóður skuldbindi sig meira ef skuldbindingin er vegna ábatasamra framkvæmda. Þá greiðir ábatinn upp skuldirnar og áhættustigið verður í rauninni betra þegar allt kemur til alls.