150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[13:27]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál. Það er mikið undir varðandi þennan málaflokk. Framtíðin er hreinlega undir. Þingmaðurinn var m.a. að velta fyrir hvort það væru takmarkanir á jarðasöfnun breskra ríkisborgara eða einungis þeirra sem væru innan Evrópusambandsins eða innan EES eða hvernig sem það er. En við erum að tala um að það verði takmarkanir á jarðasöfnun allra. Þetta frumvarp felur það í sér að skilyrði eru sett um hversu mikið land má vera á einni hendi. Það er skýrt. Eins og ég reyndi að rekja í ræðu minni áðan, ég veit ekki hvort það hefur skilað sér almennilega, þá eru einnig aðrir hlutir í þessu frumvarpi sem eru mjög mikilvægir og þarf að gera, t.d. landeignaskráin. Við Framsóknarmenn höfum lagt mjög mikla áherslu á að jarðir séu rétt skráðar. Það er náttúrlega grunnurinn að öllu utanumhaldi um jarðamálin að við getum gengið að því vísu að jarðir séu rétt skráðar. Það þarf t.d. að uppfæra fasteignamat í dreifbýli. Það er allur gangur á því. Fasteignamatið á sumum eignum er kannski 30 ára gamalt eða svo, það er ekkert að marka það. Þetta þarf að vera í lagi hjá okkur, allar þessar skráningar, en þær eru ekki í lagi. Þegar viðskipti eru höfð með jarðir þarf einnig að koma fram á afsalinu hvert kaupverðið er. Það þarf allt að vera uppi á borðinu þannig að menn geti ekki verið að leika sér eitthvað með þessa hluti. Eins og ég segi: Þarna erum við með allt undir. Það er Ísland sem er undir, landið okkar, þannig að við þurfum að gæta vel að okkur og vanda þetta betur, byrja á þessari skráningu strax og ná betur utan um þennan málaflokk með sterkri löggjöf. Við erum langt á eftir okkar nágrönnum hvað þetta varðar, því miður.