150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að nefndin, meiri hluti þingsins, sé hér að gera mistök. Hér er á ferðinni vannýtt tækifæri, eins og kom fram í meðförum þingsins, til að skapa störf og umsvif. Í rauninni er þetta eitt pennastrik. Með einu pennastiki getum við hækkað endurgreiðsluhlutfallið úr 25 í 35%. Það myndi hafa mikla efnislega þýðingu fyrir þetta sumar. Núna erum við á síðasta degi þingsins og þetta er síðasta tækifærið. Þetta eru gríðarleg vonbrigði því að ég hef áður séð hv. þingmenn meiri hlutans tala fyrir því að hér þurfi að efla kvikmyndagerð og við getum gert það núna. Við getum kallað eftir verkefnum sem vilja koma inn til landsins en endurgreiðsluhlutfallið stendur í þeim aðilum. Við höfum séð aðrar þjóðir vera að taka tímabundin skref hvað þetta varðar. Það er mikil samkeppni um að kalla til þessi verkefni. Þetta er svo mikil „win-win“ hugmynd, að hækka endurgreiðsluhlutfallið. Hér verður til list, hér verða til störf, hér verða til umsvif og umsvif á því sviði sem er núna að verða fyrir miklu höggi, hjá ferðaþjónustunni. Þetta kallar á umsvif á landsbyggðinni. Þetta kallar á nýtingu á hótelum, eftirspurn eftir veitingarekstri, leiðsögn, afþreyingu og flutningum. Allt þetta væri svo heppilegt núna, fyrir þetta sumar.

Netflix gaf út sérstaka yfirlýsingu um að Ísland væri eitt af fáum tökusvæðum sem hægt væri að ráðast í núna. Þið getið ímyndið ykkur eftirspurnina sem verður eftir nýju sjónvarps- og kvikmyndaefni að ári liðnu. Markaðinn hungrar í efni. Þess vegna finnst mér svo sorglegt að meiri hlutinn sé ekki til í að fá þau verkefni til landsins sem hægt væri að gera með einu pennastriki. Í sjálfu sér fer ekki króna út úr ríkiskassanum fyrr en miklu fleiri krónur eru komnar í hann. Ég hef líkt kvikmyndaiðnaðinum við næsta Eyjafjallajökul. Við þurfum að búa til ferðamenn framtíðarinnar eins og Eyjafjallajökull gerði.

Þetta hefði verið svo kjörið tækifæri fyrir okkur til að veðja á sjónvarps- og kvikmyndageirann. Þetta er geiri sem biður ekki um mikið en þetta er geiri sem býr (Forseti hringir.) beinlínis til peninga. Þess vegna eru það mikil vonbrigði að meiri hlutinn hafi ekki nýtt tækifærið og komið í þann leiðangur að hækka endurgreiðsluhlutfallið til að skapa umsvif, (Forseti hringir.) störf og skatttekjur sem fylgja í kjölfarið.