150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[19:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni og formanni fjárlaganefndar fyrir framsöguna. Miðflokkurinn hefur stutt flestar tillögur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum er snúa að því að lágmarka það tjón sem veirufaraldurinn hefur valdið. Ríkisstjórnin hefur að sama skapi hafnað öllum tillögum Miðflokksins og stjórnarandstöðunnar. Við höfum í Miðflokknum flutt margar góðar tillögur, t.d. um að mæta eldri borgurum í þessum faraldri. Allar tillögurnar hafa verið felldar, eins og ég sagði, og við teljum að það sé tilgangslaust að flytja slíkar tillögur aftur. Fögur orð um samráð eru sýndarmennska, því miður.

Þessi fjárauki sem er til umræðu, fjáraukalög, er þriðja frumvarp ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins. Lagt er til að veitt verði samtals ríflega 65 milljarða kr. viðbótarfjárheimild, sem eru heilmiklir peningar, vegna einkum fjögurra þátta, þ.e. framlengingar á greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli, greiðslu á launakostnaði á uppsagnarfresti, greiðslu launa einstaklinga sem sæta sóttkví og aukinnar endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar.

Miðflokkurinn styður áform um aukinn stuðning við nýsköpun og rannsóknir og leggur áherslu á að markmiðið sé ávallt að fjölga störfum um allt land. Í frumvarpinu er lögð til heimild til handa ráðherra að veita allt að 650 millj. kr. framlag til Kríu, sem er nýstofnaður sjóður, og allt að 500 millj. kr. framlag til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins vegna veitingar sérstakra mótframlagslána til sprotafyrirtækja sem hafa orðið fyrir tímabundnum skakkaföllum vegna kórónuveirufaraldursins.

Stóra málið, herra forseti, er fjölgun starfa. Atvinnuleysi er gríðarlega erfitt fyrir þá sem fyrir því verða og fjárhagslegt óöryggi veldur streitu og ýmsum öðrum vandamálum, ekki síst andlegum erfiðleikum, fyrir þá sem í því lenda sem hefur áhrif á fjölmargar fjölskyldur. Nauðsynlegt er að bregðast við því með öllum tiltækum ráðum og það á að vera forgangsmál á vegum stjórnvalda hverju sinni að vinna gegn atvinnuleysi. Það er nauðsynlegt að okkar mati að skoða hækkun og lengingu réttinda til tekjutengdra atvinnuleysistrygginga og hækkun grunnbóta. Þannig yrði framfærsla þessa stóra hóps sem nú er án atvinnu, og hann er svo sannarlega stór og fordæmalaus, að öllu leyti betur tryggð og fjárhagsáhyggjur og sú streita sem atvinnuleysi veldur minnkuð. Fólk yrði þá betur í stakk búið til að takast á við atvinnuleit, taka ákvarðanir um nám eða aðrar leiðir sem eru til þess fallnar að afla sér lífsviðurværis til framtíðar á þessum erfiðu óvissutímum.

Verði frumvarpið samþykkt óbreytt hækka útgjöld ríkisins vegna fjáraukalaganna þriggja um rúmlega 103 milljarða kr. eins og komið hefur fram. Ljóst er að ríkissjóður verður rekinn með miklum halla og það er mikilvægt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar stuðli að auknum efnahagsumsvifum en dragi ekki enn frekar úr þeim. En vandinn er mikill og hann á jafnvel eftir að aukast á haustmánuðum.

Það er ekki síst mikilvægt að treysta fjárhagslega afkomu sveitarfélaganna enn frekar vegna þess að þau hafa svo sannarlega ekki farið varhluta af kórónuveirufaraldrinum. Það er ljóst að þau þurfa að standa straum af fjárhagsaðstoð til þeirra sem hafa misst vinnuna á komandi mánuðum, á haustmánuðum, og ég ætla að koma aðeins nánar að því á eftir.

Við fögnum þessari leiðréttingu til handa kvikmyndagerð og vonumst til að það muni fjölga störfum.

Margar breytingartillögur meiri hlutans teljum við vera jákvæðar. Ég vil staldra aðeins við þær 150 millj. kr. sem eiga að mæta þeim sex sveitarfélögum sem standa illa. Að sjálfsögðu fögnum við því en ég er ansi hræddur um að þetta úrræði verði að vera víðtækara og ná til fleiri sveitarfélaga. Jöfnunarsjóðurinn hefur orðið fyrir skertum tekjum. Það hefur áhrif á sveitarfélögin og nauðsynlegt er að mæta því með einhverjum hætti. Það er því á fleiri en einu sviði sem sveitarfélögin verða fyrir tekjutapi.

Það er metatvinnuleysi samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem spáir því að atvinnuleysi verði umtalsvert á næstu tveimur árum. Horfurnar eru svipaðar og staðan var hér á árunum 2009–2011. Þessi nýja þjóðhagsspá, sem var birt fyrir skömmu, gerir ráð fyrir að atvinnuleysi verði að jafnaði 8,2% á árinu 2020 og gangi spáin eftir er um að ræða mesta atvinnuleysi sem nokkru sinni hefur mælst innan árs í lýðveldissögunni. Vandinn er gríðarlegur og stjórnvöld hafa kynnt ýmis úrræði til að takast á við versnandi atvinnuhorfur. Því miður hefur gallinn á þeim aðgerðum verið sá að þær hafa komið seint og illa til framkvæmda og sumar eru ekki enn komnar til framkvæmda. Á þeim tíma hefur dýrmætur tími tapast og verðmæti og verður að segjast eins og er, herra forseti, að það verður að gera bragarbót á þessu. Það er ljóst að hér hafa stjórnvöld, ríkisstjórnin, ekki skipulagt þessi úrræði nægilega vel að mínum dómi. Ég nefni brúarlánin, stuðningslánin sem dæmi. Þetta eru gríðarlega mikilvægar aðgerðir, eins og brúarlánin sem voru kynnt sem ein stærsta aðgerðin og eru rétt svo að komast til framkvæmda hér og nú og afar fá lán hafa verið veitt. Um þetta hefur verið fjallað. Að sama skapi með stuðningslánin, sem mörg fyrirtæki bíða eftir og geta ráðið úrslitum um það hvort fyrirtækin geti hreinlega haldið áfram starfsemi, þá bólar nánast ekkert á því úrræði enn sem komið er. Þetta er afar óheppilegt, herra forseti, og verður að segjast eins og er að það þýðir lítið að koma fram með svona aðgerðir og kynna þær með pompi og prakt á blaðamannafundi og síðan gerist ekkert í málunum vikum og mánuðum saman og á meðan blæðir fyrirtækjunum út.

Ég vil koma aðeins aftur inn á sveitarfélögin sérstaklega vegna þess að það hefur komið fram að lítið samráð hefur verið haft við sveitarfélögin um þessar aðgerðir. Þau hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli og útgjaldaaukningu og það þarf sértækar aðgerðir fyrir sveitarfélögin, það er alveg ljóst. Það sem hér er lagt upp með er engan veginn nægilegt að okkar dómi. Stór og stöndug sveitarfélög eins og Reykjavíkurborg hafa komið fyrir fjárlaganefnd og lýst því yfir að nauðsynlegt sé að styrkja sveitarfélögin með óendurkræfum styrkjum. Þegar Reykjavíkurborg er farin að biðja um fjárhagsstuðning frá hinu opinbera þá sjáum við öll hvernig staðan er og alveg ljóst að það verður að mæta öllum sveitarfélögum hvað þetta varðar og hefur Samband íslenskra sveitarfélaga ályktað í þá veru.

Ég nefndi tekjufall jöfnunarsjóðs en mikilvægt er að bregðast við því. Við megum ekki gleyma því að 80% af útsvarsstofni sveitarfélaganna eru laun. Atvinnuleysið, m.a. í Reykjavík, er hátt og snertir mikinn fjölda fólks og það er ljóst að því þarf að mæta með fjárhagsaðstoð þegar fram í sækir. Það er stór hópur fólks sem er búinn með réttindi til atvinnuleysisbóta. Atvinnuleysið var á uppleið fyrir veirufaraldurinn og það verður að hugsa til þessa fólks sem missti vinnuna fyrir veirufaraldurinn, þannig að vandinn er víðtækur.

Áherslan á nýsköpun í þessum aðgerðum er að sjálfsögðu mikilvæg, nýsköpun skapar störf og verðmæti, en við teljum að hún dugi skammt í þessum efnum og verði að bregðast við því enn frekar.

Ég ætla ekki að lengja þetta, herra forseti, en verð að segja að staðan er því miður á þann veg að ljóst er að það verður að bregðast enn frekar við. Ég fagna því að hv. þm. Willum Þór Þórsson og formaður fjárlaganefndar hefur boðað hér að það komi annar fjárauki á haustmánuðum og verði þar m.a. horft til hjúkrunarheimilanna. Ég held að það verði þar að horfa til sveitarfélaganna einnig. Það er ákaflega mikilvægt. Menn mega ekki missa sjónar á verkefninu. Það er ljóst að vandinn er mikill og hann fer vaxandi þegar snýr að atvinnumálum. Þar teljum við einfaldlega að ríkisstjórnin sé því miður engan veginn nógu vakandi yfir því og jafnvel úrræðalaus þegar kemur að því að fjölga störfum.

Ég vil í lokin nefna breytingartillögur sem Miðflokkurinn flytur við þennan fjárauka. Eins og ég nefndi áðan þá höfum við flutt fjölmargar tillögur til að mæta þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Því miður hafa þær allar verið felldar og við teljum tilgangslaust að flytja þær aftur eins og t.d. hvað varðar leiðréttingu til eldri borgara, sem er ákaflega brýnt mál og nauðsynlegt að sá hópur verði ekki skilinn út undan. Breytingartillagan sem við leggjum fram núna snýr að 235 millj. kr. mótframlagi Íslands til Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Hér er um að ræða fyrsta áfanga í fimm ára framkvæmdaáætlun og um leið fyrsta framlag Íslands sem verður þá á þessu tímabili 1 milljarður og 175 millj. kr. Framlagið er einkum ætlað til stækkunar Helguvíkurhafnar. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða sem utanríkisráðherra hefur lagt fram en ríkisstjórnin ekki komið sér saman um og utanríkisráðherra var gerður afturrækur með, sem er ákaflega dapurlegt vegna þess að þetta verkefni snýr að þjóðaröryggisstefnunni. Utanríkisráðherra hefur sagt að þetta samræmist þjóðaröryggisstefnunni þannig að við teljum að með því að falla frá því verkefni sem utanríkisráðherra lagði til þá sé ríkisstjórnin í raun að ganga gegn þjóðaröryggistefnunni. Þess vegna flytjum við þessa mikilvægu breytingartillögu, til að mæta fyrst og fremst þjóðaröryggisstefnunni og þeim skuldbindingum okkar sem okkur ber að fylgja í varnarsamstarfi okkar. Auk þess er tímapunkturinn góður vegna hins mikla atvinnuleysis á Suðurnesjum og hér er um að ræða mótframlag á NATO sem er þá allt að 14 milljarðar kr., sem utanríkisráðherra hefur upplýst um. Þessa breytingartillögu flytjum við í Miðflokknum við þennan fjárauka.

Að lokum vil ég segja það, herra forseti, að Miðflokkurinn hefur boðið fram aðstoð sína í gegnum alla þessa fjárauka, flutt tillögur og talað því miður fyrir daufum eyrum ríkisstjórnarinnar. Við höfum brugðið á það ráð að auglýsa tillögurnar í fjölmiðlum til að koma þeim á framfæri þannig að við höfum verið öll af vilja gerð til að mæta þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki sýnt því áhuga. Hún hefur fellt tillögur sem hún hefur síðan gert að sínum eftir á sem sýnir að það er ekki sama hvaðan tillögurnar koma, sem er miður vegna þess að við stöndum öll saman í þessari baráttu og þeim erfiðleikum sem við stöndum í til að vinna bug á þeim.

Herra forseti. Ég verð að segja að lokum að mér finnst skorta í þessu fjáraukalagafrumvarpi það að bregðast við því gríðarlega atvinnuleysi sem við stöndum frammi fyrir. Þar finnst mér ríkisstjórnin vera úrræðalaus. Stóra verkefnið er að fjölga störfum.