150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:49]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka okkar öfluga fólki sem staðið hefur í framlínunni í þessum heimsfaraldri Covid-19 sem nú hefur geisað í hálft ár. Starfsfólki sjúkrahúsanna, hjúkrunarheimila, heilsugæslustöðva og ekki má gleyma starfsfólki Íslenskrar erfðagreiningar og öllum hinum sem hafa lagt hönd á plóg í baráttunni við veiruna.

Eftir fjármálahrunið fyrir um áratug síðan urðum við öll hagfræðingar þar sem við lærðum hugtök úr heimi hagfræðinnar. Nú lærum við ýmis hugtök sem snúa að sóttvörnum og margir hafa skoðanir hvernig eigi að standa að þeim. Það er ekkert skrýtið við það og raun nauðsynlegt að góð umræða fari fram um það hvernig tækla eigi þau erfiðu mál sem tengjast heimsfaraldrinum og raun mikilvægt að skiptar skoðanir fái pláss í umræðunni.

Afleiðingar Covid-19 heimsfaraldursins hafa skapað eina mestu efnahagskreppu sem um getur. Leita þarf langt aftur til að finna svipaða kreppu. Bretar segja að þar í landi þurfi að fara allt aftur til byrjun 17. aldar til að finna stærri efnahagskreppu þar í landi. Sú stærsta í rúm 300 ár á Bretlandseyjum.

Ríkisstjórnin hefur frá því í mars sl. sett fram mótvægisaðgerðir til að verja grunnstoðir samfélagsins. Þá hefur ríkisstjórnin lagt í sérstakt fjárfestingarátak til að auka verðmætasköpun og tryggja störf.

Á meðal stærstu efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar vegna Covid má nefna hlutabætur, greiðslu launa á uppsagnarfresti, frestun skattgreiðslna, lokunarstyrkir, útgreiðslu séreignarsparnaðar, ferðagjöf, stuðnings- og viðbótarlán, greiðsluhlé lána og greiðsluskjól.

Og hvað hefur ríkisstjórnin gert fyrir einstaklinga, fjölskyldur og barnafólk? Það hefur verið gripið til ýmissa sérstakra aðgerða: Laun í sóttkví, allt að 633.000 kr. á mánuði eða 21.000 kr. á dag, hlutaatvinnuleysisbætur, sérstakur barnabótaauki sem er 42.000 kr. samkvæmt álagningu 2020 og 30.000 kr. til þeirra sem fá ekki barnabætur vegna tekjuskerðingar. Síðan er átak sem hefur mikið verið nýtt en það er aðgangur að séreignarsparnaður, allt að 12 milljónum á hvern einstakling. Aukin og útvíkkuð endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu, 100% endurgreiðsla þar sem áður var 60%, og þessi heimild hefur einnig verið útvíkkuð þannig að hún nái einnig til frístundahúsnæðis, heimilisaðstoðar, umhirðu íbúðarhúsnæðis bæði einstaklinga og leigjenda auk bílaviðgerða og bílaréttinga. Þá er sérstakur stuðningur sem er viðbótarframlag til tómstundastarfa barna, sértækur stuðningur og viðbótarframlag vegna umönnunar fatlaðra og langveikra barna og styrkur til umönnunaraðila án tekjutengingar og hefur ekki áhrif á aðrar bætur, og sumarúrræði fyrir námsmenn og aukið framlag til sumarstarfa fyrir námsmenn.

Þá má nefna tillögu til þingsályktunar frá fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, sem við afgreiddum hér í lok mars í fjárauka eitt, upp á tæpa 18 milljarða til viðbótar við þá 74 milljarða sem við samþykktum í fjárlögum ársins 2020 í nóvember sl. og er um 3% af landsframleiðslunni. Þessi innspýting í fjárfestingar kemur á hárréttu augnabliki nú þegar dregur úr fjárfestingum einkageirans.

Í tengslum við þá fjármálaáætlun og fjárlög sem við munum ræða hér í þessum sal eftir rúman mánuð verður kynnt sérstök fjárfestingaráætlun fyrir árin 2021–2023. Þar verður boðað til risaátaks í framkvæmdum af hálfu ríkisins þar sem lagt verður í frekari fjárfestingar sem munu stuðla að framtíðarhagvexti.

Markmiðið með fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar er að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Það komu 15 milljarðar í fjárauka eitt og fjárlaganefnd bætti við 3 milljörðum í vor sem við samþykktum.

Það er víða komið við og t.d. var bætt við sóknaráætlun sveitarfélaganna 200 milljónum og 100 milljónum til brothættra byggða.

Mig langar rétt í lokin að benda á, sem hefur kannski verið lítið í umræðunni almennt, hversu mikill fjöldi nemenda er í skólakerfi landsins. Tölur frá haustinu 2019 eru þær að nemendur í grunnskólum landsins voru þá rúmir 46.000, í framhaldsskólum 21.000 og tæplega 19.000 í háskólanámi. Þessi fjöldi telur um 105.000 nemendur á Íslandi. Það þýðir að rétt tæplega 30% íbúa landsins eru í skólakerfinu, 30%. Það undirstrikar mikilvægi þeirra aðgerða stjórnvalda og áherslu á að tryggja almannahag og velferð unga fólksins. Það er gríðarlega stórt og mikilvægt atriði í umræðunni að benda á hversu margir eru í skólakerfinu.

Á þessari stundu hefur veiruskrattinn yfirhöndina. Við vitum ekki hversu lengi sú staða verður uppi. Við ætlum og munu vaxa hratt og örugglega frá þessu ástandi þegar tækifæri gefst. Það þarf sterka ríkisstjórn sem hefur hugrekki að leggja fram efnahagsaðgerðir til að bjarga heimilum og störfum en sveiflast ekki eins og lauf í vindi þegar á móti blæs.